Mögulega fyrsti falsaði peningaseðill á Íslandi
12. febrúar 2024
Mögulega fyrsti falsaði peningaseðill á Íslandi var umræðuefnið í Samfélaginu á Rás 1 þegar Guðmundur Pálsson heimsótti Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur skjalavörð á Þjóðskjalasafni Íslands.
Mögulega fyrsti falsaði peningaseðill á Íslandi var umræðuefnið í Samfélaginu á Rás 1 þegar Guðmundur Pálsson heimsótti Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur skjalavörð á Þjóðskjalasafni Íslands. Sigríður sagði frá Þorvaldi Þorvaldssyni sem er líklegast þekktastur fyrir að falsa peningaseðil en það gerði hann einungis fimm árum eftir að ákveðið var að peningaseðlar skyldu teknir upp á Íslandi. Þorvaldur Þorvaldsson fæddist að Skógum í Þelamörk í Eyjafjarðarsveit 1763.
Þann 13. desember árið 1783 framvísaði hann fölsuðum seðli í verslun Frederiks Lynge á Akureyri og þremur dögum síðar var hann handtekinn og færður sýslumanninum á Espihóli. Þann 31. desember var Þorvaldur dæmdur til dauða fyrir verknaðinn en framkvæmd dómsins var frestað þar til æðri dómstólar hefðu fjallað um mál hans. Þorvaldur var mjög listhneigður og við réttarhöldin vegna fölsunarinnar sagðist hann hafa gert seðilinn vegna þess að hann langaði að herma eftir skriftinni. Þann 14. júní 1784 staðfesti lögþingsdómur dóminn. 2. febrúar 1785 var dómurinn mildaður í lífstíðarfangelsi í virki konungs í Krónborg og þann 23. september það ár kom Þorvaldur í fangelsið. Þar var hann í tæp þrjú ár þegar hann var látin laus vegna góðrar hegðunar.
Þorvaldur dvaldi í Danmörku til ársins 1807 þar sem hann tók upp nafnið Schovelin, giftist Ingeborg Petersen og eignaðist með henni soninn Peter Thorsen. Þegar heim var komið dvaldi hann í um fimm ár að Möðruvöllum og var þá sagður teiknari og smiður. Árið 1825 er hann sagður vera giftur húsmaður að Naustum í Eyjafirði og það sama ár er hann myrtur af Vigfúsi Thorarensen (1787-1843). Vigfús sem var veikur á geði stakk Þorvald í hjartað með sjálfskeiðungi en ekki var vitað til þess að neitt illt hefði verið á milli þeirra. Á Þjóðminjasafni Danmerkur er varðveitt málverk eftir Þorvald og sonarsonur hans, Axel Thorsen Schovelin (1827-1893) var þekktur landslagsmálari í Danmörku.