Fara beint í efnið
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða
Þjóðskjalasafn Íslands Forsíða

Þjóðskjalasafn Íslands

Breytingar á ráðuneytum 1970-2025

6. janúar 2025

Með nýrri ríkisstjórn mun skipan ráðuneyta breytast með fækkun þeirra um eitt; úr tólf ráðuneytum í ellefu með niðurlagningu menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Auk þess munu heiti nokkurra ráðuneyta og verkefni breytast.

Stjórnarráð Íslands - ÞÍ. Frímerkjasafn Pósts og síma 2002 A24-2-1

Ný ráðuneytisskipan mun taka gildi 1. mars 2025. Upplýsingar um breytinguna má finna hér.

Breytingar sem þessar eru auðvitað mikill höfuðverkur fyrir skjalafólk, hvort sem er í ráðuneytunum eða í Þjóðskjalasafni Íslands. Með breytingu á ráðuneytum þarf að byrja nýtt skjalavörslutímabil, ganga frá eldri málaskrám og öðrum skjölum ráðuneyta sem eru lögð niður, og flytja skjöl með verkefnum sem færast í ný eða eldri ráðuneyti. Og huga að afhendingu skjala til Þjóðskjalasafns. Í framtíðinni getur orðið flókið að afgreiða úr skjalasöfnum ráðuneytanna því skjöl er varða sama verkefni geta legið í skjalasöfnum margra ráðuneyta yfir nokkurra ára tímabil.

Lengst af var fjöldi ráðuneyta og heiti þeirra bundin í lög og því þurfti að breyta lögunum ef gera átti breytingar á ráðuneytum. Með lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 var þessu breytt og nú er fjöldi ráðuneyta birtur í forsetaúrskurði eftir tillögu forsætisráðherra sem áður hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um málið. Með lögunum 2011 er því auðveldara en áður að breyta ráðuneytum sem sést á fjölda breytinga sem hafa verið gerðar á Stjórnarráði Íslands á síðustu tæpu 14 árum.

Hér á eftir er yfirlit yfir fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands frá 1970-2025. Rétt er að taka fram að þetta eru ráðuneytin eins og þau eru í lögum um Stjórnarráð Íslands 1970-2011 og í forsetaúrskurðum frá 2011. Þá gefur fjöldi ráðuneyta ekki mynd af fjölda einstaklinga sem störfuðu sem ráðherrar en algengt var á 20. öld að sami einstaklingur væri ráðherra yfir fleiri en einu ráðuneyti og líka eru dæmi um að tveir ráðherrar hafi setið í einu ráðuneyti, til dæmis voru félags- og húsnæðismálaráðherra (síðar félags- og jafnréttisráðherra) og heilbrigðisráðherra í velferðarráðuneytinu á tímabili. Þá er í þessu yfirlit ekki heldur að finna upplýsingar um tilfærslu verkefna á milli ráðuneytanna sem hefur verið mikil, sérstaklega á síðustu árum.

Hér er yfirlit yfir fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands:

  • 1970–1990: 13 ráðuneyti

  • 1990–2007: 14 ráðuneyti

  • 2008–2011: 12 ráðuneyti

  • 2011–2012: 10 ráðuneyti

  • 2012–2017: 8 ráðuneyti

  • 2017–2018: 9 ráðuneyti

  • 2019–2022: 10 ráðuneyti

  • 2022–2024: 12 ráðuneyti

  • 2025– : 11 ráðuneyti

Hér koma svo nánari skýringar á ráðuneytunum:

Ráðuneytin voru 13 talsins með setningu laga um Stjórnarráð Íslands frá 1969 en þau tóku gildi 1. janúar 1970. Þessi ráðuneyti voru (og jú Hagstofan var ráðuneyti til 2007):

  1. forsætisráðuneyti

  2. dóms- og kirkjumálaráðuneyti

  3. félagsmálaráðuneyti

  4. fjármálaráðuneyti

  5. Hagstofa Íslands

  6. heiIbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

  7. iðnaðarráðuneyti

  8. landbúnaðarráðuneyti

  9. menntamálaráðuneyti

  10. samgönguráðuneyti

  11. sjávarútvegsráðuneyti

  12. utanríkisráðuneyti

  13. viðskiptaráðuneyti

Árið 1990 bættist umhverfisráðuneytið við og þá voru ráðuneytin orðin 14 talsins. Árið 2008 voru ráðuneytin orðin 12 en þá voru ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar sameinuð í eitt ráðuneyti og Hagstofa Íslands var ekki lengur sérstakt ráðuneyti. Árið 2011 voru þau orðin 10 talsins, og urðu þá til tvö ný ráðuneyti með sameiningu, það er velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið. Árið 2012 urðu ráðuneytin svo 8 talsins:

  1. forsætisráðuneyti

  2. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

  3. fjármála- og efnahagsráðuneyti

  4. innanríkisráðuneyti

  5. mennta- og menningarmálaráðuneyti

  6. umhverfis- og auðlindaráðuneyti

  7. utanríkisráðuneyti

  8. velferðarráðuneyti

Árið 2017 var fjölgað um eitt ráðuneyti þegar innanríkisráðuneytinu var skipt upp í dómsmálaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Árið 2019 urðu ráðuneytin svo 10 talsins að nýju þegar velferðarráðuneytinu var skipt upp í tvö ráðuneyti, það er félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið. Á tímabilinu 2022–2024 voru ráðuneytin 12 talsins:

  1. forsætisráðuneyti

  2. dómsmálaráðuneyti

  3. félag- og vinnumarkaðsráðuneyti

  4. fjármála- og efnahagsráðuneyti

  5. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

  6. heilbrigðisráðuneyti

  7. innviðaráðuneyti

  8. matvælaráðuneyti

  9. menningar- og viðskiptaráðuneyti

  10. mennta- og barnamálaráðuneyti

  11. umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneyti

  12. utanríkisráðuneyti

Í nýrri ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur fækkar ráðuneytum um eitt og frá 1. mars verður skipan þeirra svo:

  1. forsætisráðuneyti

  2. utanríkisráðuneyti

  3. félags- og húsnæðismálaráðuneyti

  4. atvinnuvegaráðuneyti

  5. menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti

  6. dómsmálaráðuneyti

  7. mennta- og barnamálaráðuneyti

  8. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

  9. umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

  10. heilbrigðisráðuneyti

  11. fjármála- og efnahagsráðuneyti

Myndin af stjórnarráðshúsinu er eftir Vigfús Sigurgeirsson og er úr Frímerkjasafni Pósts og síma sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni (ÞÍ. Frímerkjasafn Pósts og síma 2002 A24-2-1).