Andóf og pönk á Safnanótt
4. febrúar 2025
Hvernig birtist pönk og andóf í íslensku samfélagi, hvað er pönk og hvenær eru aðgerðir skilgreindar sem andóf? Andóf og pönk er umfjöllunarefni Þjóðskjalasafns Íslands á Safnanótt þann 7. febrúar næstkomandi.


Kristín Svava Tómasdóttir, sagnfræðingur og ljóðskáld, Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur og Sigrún Bragadóttir, hannyrðapönkari munu flytja erindi og ræða við gesti. Safnkostur sem tengist andófi og pönki verður til sýnis og hljómsveitin Mandólín flytur vel valin andófslög. Hlekkur á viðburðinn á Facebook er hér.
Dagskrá:
18:00 Húsið opnar. Hljómsveitin Mandólín spilar vel valin lög
18:30 Kristín Svava Tómasdóttir, Andóf í ástandsskjölunum
Aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna ástandsins svokallaða á hernámsárum seinni heimsstyrjaldar, til að koma í veg fyrir samneyti íslenskra stúlkna og hermanna, eru vel þekktar. Fylgst var með fjölda kvenna á öllum aldri og ef unglingsstúlkur þóttu hafa of náin samskipti við hermenn áttu þær á hættu að vera kallaðar til yfirheyrslu, fara fyrir ungmennadómstól og vera sendar í sveit eða á vistheimilið á Kleppjárnsreykjum. Skjöl sem varða þessa starfsemi eru varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Í þeim birtast stúlkurnar þó ekki aðeins sem hljóðlát fórnarlömb kerfisins heldur sýndu þær af sér klókindi, veittu mótspyrnu, voru með vesen og hávaða. Í erindinu verður kafað í skjölin og sjónum beint að þessu andófi.
19:00 Hljómsveitin Mandólín spilar
19:30 Vilhelm Vilhelmsson, Hrói Höttur Íslands? Uppreisnarseggurinn Ísleifur seki Jóhannesson (1787-1829)
Á fyrsta þriðjungi 19. aldar var Ísleifur Jóhannesson, kallaður Ísleifur seki, annálaður um land allt fyrir ýmis afbrot og fyrir að gefa viðteknu stigveldi, siðum og venjum langt nef. Um hann ortu ýmis alþýðuskáld vísur sem gengu landshorna á milli og sögur voru sagðar um uppreisnargjarnt atferli hans svo hann varð eins konar þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Hann var margdæmdur fyrir þjófnað og endaði ævi sína í dönsku fangelsi, brennimerktur og ærulaus. Saga hans er þó að mestu gleymd. En hver var þessi Ísleifur og af hverju varð hann svona alræmdur? Því verður svarað í þessu erindi.
20:00 Sigrún Bragadóttir, Hannyrðir/handverk + pönk = Hannyrðapönk: Andóf og hreyfiafl
Hannyrðapönk er frjálsleg þýðing á enska orðinu „craftivism“, sem er samsett úr ensku orðunum craft og activism. Samkvæmt „ljósmóður“ hannyrðapönksins, Betsy Greer, á hugtakið „craftivism“ rætur að rekja til pönktímabilsins og hugmyndafræða pönksins, andófsins, aktívismans og „gerðu það sjálf/-ur/-t“ hreyfiaflsins sem því fylgdi. Í fyrirlestrinum mun Sigrún fjalla um hvað hannyrðapönk er og hvernig það hefur verið notað sem andóf og hreyfiafl til að vekja athygli á málefnum líðandi stundar.
20:30 – 21:30 Sýning á safnkosti
Frítt inn og öll velkomin!