Ánægðir gestir á Safnanótt
10. febrúar 2025
Um 60 gestir heimsóttu Þjóðskjalasafn á Safnanótt föstudaginn 7. febrúar og tóku þátt í dagskrá sem helguð var andófi og pönki í íslensku samfélagi.
Heimildir um andóf á ýmsum tímum Íslandssögunnar má finna í safnkosti Þjóðskjalasafns og nokkur ólík dæmi um uppreisn voru til sýnis á Safnanótt.
Meðal þess sem gestir gátu skoðað var ein af kylfunum sem notaðar voru í Gúttóslagnum 1932 þegar slóst í brýnu milli verkamanna og lögreglu í Reykjavík. Fjöldapóstur gegn hvalveiðum sem barst erlendis frá í sekkjatali til forsætisráðuneytisins var sýndur, ein af minnisbókum Jóhönnu Knudsens með skýrslum hennar um ungar stúlkur í „ástandinu“, kirkjubókin þar sem skírn Helga Hóseassonar er skráð, rímur hans um Ésu Kryssti og dómabók sem rakti þjófnaðarmál gegn Ísleifi Jóhannessyni, alræmdum uppreisnarsegg sem uppi var í lok 18. aldar og byrjun þeirrar 19.
Á skjá var sýnd tónleikaferð Utangarðsmanna og fleiri pönkara árið 1981 um Ísland, Norðurlöndin og Holland en þeir spiluðu á tæplega 60 stöðum, auk þess sem minnisbók og flugmiðar hljómsveitarmeðlima voru til sýnis.
Gestir fengu einnig að kynnast hannyrðapönki og „craftivisma“ hreyfingunni víða um heim sem Sigrún Bragadóttir hannyrðapönkari kynnti, auk þess sem hún sýndi eigið hannyrðapönk. Gestir gátu svo tekið heim með sér byrjendapakka í boði Sigrúnar til að finna sína eigin fjöl í hannyrðapönki.
Á dagskrá voru einnig afar fróðlegir og skemmtilegir fyrirlestrar Kristínar Svövu Tómasdóttur, sagnfræðings og ljóðskálds og Vilhelms Vilhelmssonar sagnfræðings sem kveiktu líflegar umræður meðal gesta. Nánar má lesa um fyrirlestra þeirra hér.
Síðast en ekki síst skemmti hljómsveitin Mandólín Safnanæturgestum en þau fluttu alþjóðleg andófslög af miklum glæsibrag. Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna á Safnanótt!