Persónuvernd og gagnamiðlun
Persónuvernd innan Sjúkratrygginga
Vernd persónuupplýsinga eru mikilvægur liður í starfsemi Sjúkratrygginga. Í tengslum við lögbundið hlutverk stofnunarinnar er nauðsynlegt að skrá og vinna með ýmsar persónu- og heilsufarsupplýsingar um notendur heilbrigðisþjónustu/umsækjendur. Innan stofnunarinnar er rík áhersla lögð á að þagnar-og trúnaðarskylda sé virt og öryggi upplýsinga tryggt.
Persónuverndarskilmálar Sjúkratrygginga
Sjúkratryggingar hafa sett sér persónuverndarskilmála sem byggir á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Skilmálar voru samþykktir af framkvæmdastjórn 25. júní 2019 og uppfærðir 11. mars 2020. Í skilmálum er fjallað um tilgang vinnslu persónuupplýsinga þeirra einstaklinga sem eiga í samskiptum við stofnunina. Einnig er þar fjallað um hvaða upplýsingum er safnað, með hvaða hætti, hvernig þær eru varðveittar, hvert þeim er miðlað og hvernig öryggis þeirra er gætt í starfseminni. Einnig koma þar fram upplýsingar um rétt einstaklinga í þessum efnum bæði á íslensku og ensku er þá að finna hér.
Miðlun upplýsinga og gagna til Sjúkratrygginga
Sjúkratryggingar leggja ríka áherslu á að miðlun gagna og önnur samskipti fari fram í gegnum Þjónustugáttir stofnunarinnar, þ.e. Réttinda- og Gagnagátt, sbr. 50. gr. laga nr. 112/2008. Öruggasta leiðin fyrir viðskiptavini Sjúkratrygginga til að senda beiðnir, umsóknir og önnur gögn er í gegnum Þjónustugáttirnar, sem og að taka á móti gögnum frá stofnuninni.
Öll skjöl sem Sjúkratryggingar birta í Réttindagátt eru einnig birt í Stafræna pósthólfinu hjá Ísland.is: www.island.is. Í stafræna pósthólfinu geta notendur veitt aðilum umboð að mínum síðum, þar sem meðal annars er að finna skjöl Sjúkratrygginga. Það er gert með því að fara undir aðgangsstýringar (vinstra megin á upphafssíðu eftir að notandi hefur skráð sig inn) og skrá inn kennitölu umboðsmanns. Með veitingu aðgangs fær umboðsmaður þó einnig aðgang að skjölum annarra stofnana sem birt eru í pósthólfinu.
Þá er einnig hægt að veita umboðsmönnum aðgang að Réttindagátt umbj. sinna. Það er gert með því að velja viðeigandi aðgangsstýringu í umboðsmannakerfinu og þar með gera umboðsmanni kleift að nýta umboð við innskráningu á Réttindagátt.
Umboðsmenn geta í framhaldinu farið á innskráningarsíðu Réttindagáttar og valið: Umboð gegnum Ísland.is.
Einstaklingar geta sent skjöl og beiðnir í gegnum Réttindagátt og sömuleiðis tekið á móti bréfum og öðrum skjölum. Nánari upplýsingar fyrir notendur Réttindagáttar er að finna hér: Réttindagátt Sjúkratrygginga.
Veitendur heilbrigðisþjónustu og aðrir rekstraraðilar geta sent skjöl og beiðnir í gegnum Gagnagátt stofnunar/fyrirtækis og tekið á móti gögnum. Nánari upplýsingar fyrir notendur Gagnagáttar er að finna hér: Innskráning.
Persónuverndarfulltrúar geta fengið sérstakan aðgang að Gagnagátt til að senda skjöl og beiðnir til Sjúkratrygginga og taka á móti gögnum. Nánari upplýsingar eru að finna hér: Innskráning.
Erindi sem tengjast persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga
Viðskiptavinir Sjúkratrygginga geta haft samband við persónuverndarfulltrúa til að fá upplýsingar um réttindi sín og vegna annarra málefna sem tengjast persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Hægt er að senda persónuverndarfulltrúa erindi í gegnum Þjónustugáttir Sjúkratrygginga, með því að velja flokkinn: Persónuvernd undir liðnum Rafræn skil á skrá. Einnig er hægt að senda tölvupóst á netfangið: personuvernd@sjukra.is eða hafa samband í síma: 515-0000.
Upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga vegna ákveðna umsókna um réttindi