Góða helgi!
3. ágúst 2023
Samgöngustofa óskar landsmönnum ánægjulegrar helgar, góðra minninga og öruggrar heimkomu.
Nú er verslunarmannahelgin framundan og má búast við mikilli umferð um landið og til þess verða notuð margskonar samgöngutæki á lofti, láði og legi.
Starfsfólk Samgöngustofu mun standa vaktina um helgina og miðla upplýsingum og heilræðum varðandi umferðina í fjölmiðlum. Auk þess munu starfsmenn annast athuganir og eftirlit með flugi líkt og verið hefur undanfarin ár en rétt er að undirstrika að þau mál eru yfirleitt til fyrirmyndar hjá íslenskum rekstaraðilum og skírteinishöfum.
Verða að hafa rekstrarleyfi til farþegaflutninga
Til að fljúga eða sigla með farþega gegn greiðslu þarf flugrekstrarleyfi eða farþegaleyfi en gerðar eru sérstakar kröfur til handhafa slíkra leyfa m.a. hvað öryggi og þjónustu varðar. Hvað varðar siglingar með farþega er Landhelgisgæsla Íslands með eftirlit á sjó.
Það má deila kostnaði
Einkaflugmönnum og eigendum skemmtibáta er heimilt að taka með sér fólk í ferð, innan marka þeirra reglna sem um það gilda. Heimilt er að deila útlögðum kostnaði með farþegum eins og t.d. eldsneyti að því gefnu að einn hluti kostnaðar falli á þann sem stofnar til ferðarinnar.
Það getur tekið 2 tíma að komast í Landeyjarhöfn
Þau sem hyggjast ferðast á einkabílnum um helgina eru hvött til að gefa sér góðan tíma til því ferðin kann að taka lengri tíma sökum mikillar umferðar. Ferð í Landeyjarhöfn frá höfuborgarsvæðinu getur tekið 2 klukkustundir ef aðstæður eru góðar.
Hvílum símann og annað það sem truflað getur aksturinn og förum ekki yfir leyfðan hámarkshraða sem reyndar miðast einvörðungu við bestu mögulegu aðstæður. Þau sem þurfa að fara hægar skulu haga akstri þannig að auðvelt sé og öruggt að fara framúr þeim.
Algengustu orsakir banaslysa í umferðinni
Akstur undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra vímuefna er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni ásamt hraðakstri og vannotkun á öryggisbeltum. Það eru vegfarendur sjálfir sem geta tekið þessa hættu úr umferð og mikilvægur hluti þess er að öryggisbelti séu alltaf og allstaðar notuð í bílnum. Verum þess fullviss að ekkert áfengi né önnur vímuefni séu í blóði áður en sest er undir stýri.
Samgöngustofa óskar landsmönnum ánægjulegrar helgar, góðra minninga og öruggrar heimkomu.