Vegna umfjöllunar um sjúkraskrá
27. febrúar 2025
Strangar heilbrigðiskröfur eru gerðar til þeirra sem fá útgefið skírteini atvinnuflugmanna. Ákvarðanir um sviptingu heilbrigðisvottorðs og þar með missi réttinda eru teknar alvarlega og með flugöryggi að leiðarljósi.


Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um sjúkraskrá og missi atvinnuflugmannsréttinda er rétt að eftirfarandi komi fram:
Samkvæmt samningi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafði trúnaðarlæknir Samgöngustofu aðgang að sjúkraskrá um árabil. Nýttist hann þegar leggja þurfti sérstakt mat á heilbrigði umsækjenda um leyfi til flugstarfa. Heilsugæslunni láðist hins vegar að afla lögbundins samþykkis ráðherra fyrir samningnum. Í kjölfar úrskurðar Persónuverndar frá 23. september 2024 var samningnum rift.
Samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar starfaði trúnaðarlæknir Samgöngustofu innan aðgangsheimilda sinna, samkvæmt almennu verklagi stofnunarinnar. Öflun gagna fór fram í samræmi við umræddan samning og var öryggi þeirra í meðförum tryggt.
Á Samgöngustofu hvíla ríkar skyldur í tengslum við eftirlit með flugmálum og einstaklingum sem eru handhafar réttinda. Strangar heilbrigðiskröfur eru gerðar til þeirra sem fá útgefið skírteini atvinnuflugmanna. Ákvarðanir um sviptingu heilbrigðisvottorðs og þar með missi réttinda eru teknar alvarlega og með flugöryggi að leiðarljósi.