Starfsleyfi til siglinga með farþega
27. mars 2024
Reglur um starfsleyfi
Samkvæmt 41. gr. skipalaga nr. 66/2021 þarf leyfi Samgöngustofu til farþegaflutninga í atvinnuskyni í lögsögu Íslands. Undir það falla t.a.m. skoðunarferðir ferðamanna, hvort sem er á RIB-bátum, Zodiac bátum, kafbátum eða öðrum bátum.
Skemmtiferðaskip eru undanþegin reglunum en skipsbátar þeirra eru eingöngu undanþegnir þegar þeir ferja fólk beint í land og til baka. Eigi að fara í ferðir með farþega hér við land, svo sem skoðunarferðir þarf til þess leyfi Samgöngustofu.
Séu bátarnir undir 6 metrum þarf starfsleyfi fyrir þá, þar sem tekið er fram hvernig starfseminni verði háttað, tryggt sé að tryggingar séu fullnægjandi, öryggisáætlun liggi fyrir o.þ.h. Leyfið er fyrir alla bátana sem skipið notar til starfseminnar og gildir leyfið til þess tíma sem skoðun bátanna eða eftir atvikum tryggingar skipsins duga til. Leyfið er ekki bundið staðsetningu en getur verið bundið nánari skilyrðum s.s. bara 3 mílur frá skipinu, takmarkanir vegna veðurs eða ölduhæðar o.s.frv.
Séu bátarnir yfir 6 metrum að lengd þarf að sækja um farþegaleyfi fyrir bátana og þurfa þeir þá hver fyrir sig að vera skráðir og starfsemin að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til annarra farþegabáta.
Hafa skal samband við Samgöngustofu til að fá frekari upplýsinga um leyfi og sækja um þau á heimasíðu stofnunarinnar.
Eyðublað fyrir báta undir 6 metrum er að finna á heimasíðu Samgöngustofu undir Umsókn um starfsleyfi til reksturs bátaleiga, kajakleiga, flúðasiglinga og siglingaklúbbs. Hér er hægt að sækja um leyfi fyrir fleiri báta skemmtiferðaskips í einu.
Fyrir báta 6 m og lengri skal nota eyðublaðið Umsókn um leyfi/endurnýjun á leyfi til farþegaflutninga með skipum, sem er að finna á heimasíðu Samgöngustofu. Sækja þarf um sérstakt farþegaleyfi fyrir hvern bát.
Í umsóknagáttinni er beðið um kennitölu og er hér reiknað með að umboðsmenn sæki um fyrir hönd skipanna og setji sínar kennitölur. Það þýðir þó ekki að umboðsmenn gangist í ábyrgð fyrir starfseminni þar sem hún er á ábyrgð skipsins.
Umsóknir verða afgreiddar svo fljótt sem verða má en afgreiðslan getur tekið 10 virka daga.
Hvert starfsleyfi kostar, skv. gjaldskrá Samgöngustofu 15.317 kr. Þurfi lengri tíma eða ferðir til að ganga frá leyfum leggst kostnaður skv. gjaldskrá ofan á verðið.