Bókleg almenn ökupróf verða rafræn frá 16. maí 2024
16. maí 2024
Frá og með 16. maí 2024 verða bókleg almenn ökupróf rafræn um allt land.
Allir ökunemar munu framvegis taka próf til B-réttinda á tölvutæku formi hjá prófamiðstöð Frumherja. Með því eru bókleg almenn ökupróf færð í nútímalegt horf þar sem ökuneminn getur séð niðurstöðu sína samstundis. Notast verður við tilbúið prófakerfi sem býður upp á stöðuga endurskoðun á prófum og einstökum spurningum.
Með rafrænni próftöku verður prófið ein heild, en ekki lengur skipt í tvo hluta. Einnig hafa prófspurningar verið uppfærðar með það að markmiði að forðast misskilning hjá ökunemum. Spurningarnar eru nú fullyrðingar sem nemendur svara með rétt eða rangt. Alls verður prófið 50 fullyrðingar og þurfa nemendur að svara minnst 46 þeirra rétt til að standast prófið, sem er sama hlutfall og áður.
Rafræn bókleg ökupróf eru mikilvægur áfangi í því að bæta þjónustu við ökunema. Rafrænu ökuprófin eru skref í áætlun um einföldun og aukin gæði með stöðugum umbótum. Flestir ökunemar stefna á almenn ökuréttindi (B-réttindi) en undirbúningur fyrir rafræna próftöku í öðrum flokkum ökuréttinda stendur yfir.
Verkefni um rafræn ökupróf er í umsjón Samgöngustofu sem hefur unnið það í samstarfi við Frumherja sem sér um framkvæmd ökuprófa.