Sekt á hendur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna vinnslu persónuupplýsinga í sameiginlegu sjúkraskrárkerfi
18. febrúar 2025
Persónuvernd hefur tekið ákvörðun vegna frumkvæðisathugunar á vinnslu persónuupplýsinga í sameiginlegu sjúkraskrárkerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.


Persónuvernd hefur tekið ákvörðun vegna frumkvæðisathugunar á vinnslu persónuupplýsinga í sameiginlegu sjúkraskrárkerfi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Athugunin var afmörkuð við lögmæti vinnslunnar, þ.e. hvort heilsugæslunni hefði verið heimilt að sameina sjúkraskrárkerfi stofnunarinnar við sjúkraskrárkerfi annarra aðila, þ.m.t. að veita viðkomandi aðilum aðgang að sjúkraskrá sjúklinga stofnunarinnar.
Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefði ekki sýnt fram á að sú vinnsla persónuupplýsinga, sem fólst í því að veita Heimaþjónustu Reykjavíkur, Heilsugæslunni Höfða, Heilsugæslunni Salahverfi, Heilsugæslunni Urðarhvarfi, Knattspyrnusambandi Íslands, Fluglæknasetrinu, Samgöngustofu, Janusi endurhæfingu ehf., Heilsugæslunni Höfða Suðurnesjum, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnun, aðgang að hinu sameiginlega sjúkraskrárkerfi stofnunarinnar, hefði verið heimil, enda hefði ekki verið gætt að skilyrðum sjúkraskrárlaga við umræddar sameiningar. Lögð var 5.000.000 króna stjórnvaldssekt á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna þeirra brota.