Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Nýtt starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf. og bréf til dómsmálaráðuneytisins um lagaumhverfi fjárhagsupplýsingastofa

21. nóvember 2024

Merki - Persónuvernd

Persónuvernd hefur gefið út nýtt starfsleyfi til handa fjárhagsupplýsingastofunni Creditinfo Lánstraust hf., dags. 18. nóvember 2024. Leyfið öðlast gildi 1. desember næstkomandi.

Um er að ræða fyrsta starfsleyfið sem gefið er út eftir að eldri reglugerð nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, var felld úr gildi og ný reglugerð nr. 606/2023, um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, tók gildi þann 1. september 2023.

Skilmálar nýja starfsleyfisins eru töluvert frábrugðnir skilmálum í eldri starfsleyfum Creditinfo Lánstrausts hf. en þeir eru mun styttri og efnisminni en áður var. Ástæða þess er einkum sú að reglugerð nr. 606/2023 gerir einungis ráð fyrir því að Persónuvernd geti, í skilmálum starfsleyfis, mælt fyrir um sérstakar skyldur fjárhagsupplýsingastofu að mjög takmörkuðu leyti.

Við gerð starfsleyfisins kannaði Persónuvernd ítarlega núverandi lagaumgjörð um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa og er niðurstaða stofnunarinnar að tilefni kunni að vera til að endurskoða hana.

Samhliða útgáfu starfsleyfisins hefur Persónuvernd því sent dómsmálaráðuneytinu bréf, þar sem stofnunin greinir frá þeirri afstöðu sinni að þörf sé á skýrari lagaramma um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa. Telur Persónuvernd meðal annars að setja þurfi vinnslutíma persónuupplýsinga hjá fjárhagsupplýsingastofum einhverjar skorður í reglugerð eða eftir atvikum í lögum og að afmarka þurfi betur þær tegundir upplýsinga sem fjárhagsupplýsingastofum er heimilt að vinna með.

Nýtt starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf., dags. 18. nóvember 2024

Bréf Persónuverndar til dómsmálaráðuneytisins, dags. 19. nóvember 2024.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820