Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Nýtt samkomulag um flutning persónuupplýsinga frá Evrópu til Bandaríkjanna

12. júlí 2023

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tilkynnt um nýtt samkomulag um flutning persónuupplýsinga frá Evrópu til Bandaríkjanna. 

Merki - Persónuvernd

Hinn 10. júlí 2023 samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) nýja jafngildisákvörðun (e. adequacy decision) varðandi flutning persónuupplýsinga frá Evrópu til Bandaríkjanna.

Ákvörðuninni er ætlað að veita persónuupplýsingum sem fluttar eru frá Evrópu til Bandaríkjanna fullnægjandi vernd. Hún kemur í stað eldra samkomulags, EU US Privacy Shield, sem Evrópudómstóllinn ógilti með dómi sínum í Schrems II-málinu þann 16. júlí 2020. Nánari upplýsingar um Schrems II-dóminn má nálgast hér.

Með hinu nýja samkomulagi hefur verið komið til móts við þær athugasemdir sem dómstóllinn gerði við _EU US Privacy Shield-_samkomulagið. Meðal annars gerir samkomulagið ráð fyrir takmörkunum á aðgengi bandarískra yfirvalda (e. US intelligence services) að persónuupplýsingunum, auk þess sem evrópskir borgarar munu eiga kost á að sækja rétt sinn, telji þeir að meðferð persónuupplýsinga þeirra hjá bandarískum fyrirtækjum brjóti gegn samkomulaginu, en með því er meðal annars komið á fót sérstökum bandarískum dómstól, Data Protection Review Court (DPRC), sem evrópskir borgarar munu hafa aðgang að.

Í hinu nýja samkomulagi felst að Bandaríkin tryggja persónuupplýsingum, sem fluttar eru frá Evrópu til bandarískra fyrirtækja á grundvelli þess, viðunandi vernd. Þetta á nánar tiltekið einungis við um bandarísk fyrirtæki sem gangast með formlegum hætti undir þær skyldur sem samkomulagið gerir ráð fyrir hvað varðar vernd og meðferð persónuupplýsinga.

Þar sem persónuverndarlöggjöf ESB er hluti af EES-samningnum gildir samkomulagið einnig um flutning persónuupplýsinga frá Íslandi til tiltekinna fyrirtækja í Bandaríkjunum.

Nánari upplýsingar má finna á eftirfarandi tenglum:

Fréttatilkynning Evrópusambandsins um hið nýja samkomulag

Jafngildisákvörðunin (e. Adequacy decision on the EU-US Data Privacy Framework)

Spurt og svarað um efni samkomulagsins á vefsíðu framkvæmdastjórnar ESB

Skýringabæklingur um helstu atriði samkomulagsins frá framkvæmdastjórn ESB

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820