Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Danska persónuverndarstofnunin gefur sveitarfélögum fyrirmæli vegna notkunar á skýjaþjónustu Google í grunnskólastarfi

5. febrúar 2024

Merki - Persónuvernd

Danska persónuverndarstofnunin hefur haft til skoðunar notkun 53 sveitarfélaga á nemendakerfi Google, Google Workspace for Education, í grunnskólastarfi. Stofnunin hefur nú birt ákvörðun er varðar hluta málsins og snýr að lögmæti miðlunar sveitarfélaganna á persónuupplýsingum nemenda til Google.

Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögunum hafi verið heimilt að miðla persónuupplýsingum nemenda til Google, í þeim tilgangi að fyrirtækið geti veitt þjónustuna, aukið öryggi og áreiðanleika hennar, átt í samskiptum við sveitarfélögin vegna þjónustunnar og uppfyllt lagaskyldu. Byggir miðlun upplýsinganna á e-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, þar sem hún er nauðsynleg til að framfylgja lögbundnum verkefnum sveitarfélaganna á grundvelli danskra grunnskólalaga (d. folkeskoleloven). Að mati dönsku stofnunarinnar veita grunnskólalögin hins vegar ekki nægilega skýran grundvöll til þess að sveitarfélögunum sé heimilt að miðla persónuupplýsingum nemenda til Google sem vinnur þær áfram í þeim tilgangi að betrumbæta þjónustuna og aðrar þjónustur, mæla árangur þjónustunnar og þróa nýja eiginleika hennar.

Danska persónuverndarstofnunin hefur lagt fyrir sveitarfélögin að færa vinnsluna til samræmis við persónuverndarlöggjöfina, með því að tryggja að heimild standi fyrir allri miðlun persónuupplýsinga til Google.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni á vefsíðu dönsku persónuverndarstofnunarinnar (https://www.datatilsynet.dk/afgoerelser/afgoerelser/2024/jan/datatilsynet-giver-paabud-i-chromebook-sag).

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820