Birting upplýsinga um einstaklinga sem koma fram fyrir hönd lögaðila teljist vinnsla persónuupplýsinga
10. apríl 2025
Dómstóll Evrópusambandsins (CJEU) hefur kveðið upp mikilvægan úrskurð um persónuvernd í málinu L.H. gegn heilbrigðisráðuneyti Tékklands. Þar staðfestir dómstóllinn að birting nafna, undirskrifta og samskiptaupplýsinga einstaklinga sem koma fram fyrir hönd lögaðila telst vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt persónuverndarreglugerðinni.

Málið hófst þegar L.H. fór fram á að fá afhentar upplýsingar um þá einstaklinga sem höfðu skrifað undir samninga um kaup á COVID-19 skimunarprófum fyrir hönd tékkneska heilbrigðisráðuneytisins, auk vottorða sem sýna að prófin mætti nota innan Evrópusambandsins. Ráðuneytið afhenti vottorðin en felldi út nöfn, undirskriftir, starfsheiti og samskiptaupplýsingar viðkomandi einstaklinga með vísan til persónuverndar og skyldu samkvæmt landslögum til að upplýsa hlutaðeigandi áður en slík gögn eru birt.
Líkt og að framan greinir komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að birting upplýsinga um einstakling sem kemur fram fyrir hönd lögaðila teljist vinnsla persónuupplýsinga jafnvel þótt tilgangurinn sé einungis að auðkenna þann sem er heimilt að starfa fyrir hönd viðkomandi lögaðila. Þá taldi dómstóllinn að landslög sem krefjast þess að opinber aðili upplýsi og ráðfæri sig við viðkomandi einstaklinga áður en opinber skjöl sem innihalda persónuupplýsingar eru birt séu samrýmanleg persónuverndarreglugerðinni, með þeim fyrirvara að slík skylda geri birtinguna ekki ómögulega og feli ekki í sér óhóflega byrði sem gæti takmarkað rétt almennings til aðgangs að opinberum gögnum um of.
Úrskurðurinn undirstrikar mikilvægi jafnvægis á milli réttmæts gagnsæis í opinberu starfi og verndar persónuupplýsinga og markar fordæmi fyrir framkvæmd reglna um aðgang að gögnum á Evrópska efnahagssvæðinu.