Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn – fræðsluátak Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar

7. febrúar 2023

Í dag, 7. febrúar 2023, er alþjóðlegi netöryggisdagurinn. Hið stafræna umhverfi er í stöðugri þróun og netnotkun verður sífellt stærri hluti af lífi barna. Sú þróun skapar ný tækifæri og marga möguleika en henni fylgir einnig aukin hætta á því að brotið sé gegn börnum og réttindum þeirra.

Alþjóðlegi netöryggisdagurinn – fræðsluátak
Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, undirrituðu í síðustu viku samning upp á 10 m.kr. styrk til Persónuverndar vegna verkefnis sem felur í sér tímabundið fræðsluátak um mikilvægi persónuverndar, miðlalæsis og netöryggis barna í stafrænni tilveru. Aðgerðin er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi 2022-2027.

Á Íslandi hefur aukin áhersla verið lögð á að efla stafrænt læsi barna og endurspeglast það m.a. í menntastefnu fyrir árin 2021-2030, þar sem lögð er áhersla á að efla framtíðarhæfni í stafrænni tilveru nemenda. Það felur í sér að nemendur þurfa að geta gert sér grein fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem felast í stafrænni tilveru, sem kallar á þjálfun þeirra í upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi. Jafnframt þurfa nemendur að læra hvernig á að hagnýta stafræna tækni og auka eigin þekkingu á persónuvernd og meðferð og greiningu upplýsinga. Í stefnunni er einnig fjallað um að huga þurfi að notkun nemenda á samfélagsmiðlum og kenna þeim ábyrga nethegðun og helstu reglur um örugg stafræn samskipti.

Fræðsluátakið verður unnið í samstarfi við Fjölmiðlanefnd og er vinna við það þegar hafin. Stefnt er að því að starfsmenn Persónuverndar og Fjölmiðlanefndar fari í kynningarátak um landið og hefst það haustið 2023. Haldin verða fræðsluerindi víða á landsbyggðinni, ýmist í grunnskólum eða öðrum samkomuhúsum, og útbúin fjölbreytt fræðsla fyrir börn, kennara og foreldra.

Persónuvernd fagnar því að stjórnvöld veiti þessu mikilvæga og þarfa verkefni liðsstyrk og hlakkar til komandi fræðsluátaks í samstarfi við Fjölmiðlanefnd og grunnskóla landsins.

Mynd: Vigfús Birgisson

Mynd: Vigfús Birgisson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, við undirritun samningsins.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820