Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Aðgangur lögreglu að IP-tölum án dómsúrskurðar

6. maí 2005

Merki - Persónuvernd

Persónuvernd hefur borist tölvupóstur frá samgönguráðuneytinu í dag þar sem kemur fram:

1. Að fallist er á ábendingu Persónuverndar um að í stað eins árs verði farið niður í sex mánaða varðveislutíma fjarskiptaupplýsinga. Persónuvernd fagnar þeirri breytingu.

2. Að í stað afdráttarlauss ákvæðis um skráningu GSM frelsis komi heimildarákvæði fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að setja reglur um skráninguna. Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við þessa breytingu, enda verði persónuverndarsjónarmið að fullu virt við setningu þeirra reglna.

3. Að ákvæði 9. gr. frumvarpsins muni standa óbreytt. Sú ákvörðun er rökstudd með eftirfarandi hætti:

,,Mikilvægt er að greinin fari fram óbreytt þar sem núgildandi ákvæði 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála hafa í dómaframkvæmd verið túlkuð þannig að lögregla hefur ekki getað fengið upplýsingar um IP-tölur nema að við broti sem er til rannsóknar, liggi annað hvort 8 ár fangelsi eða að um sé að ræða ríka almanna- eða einkahagsmuni. Með þessum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála eru upplýsingar um símanúmer og IP-tölur lagðar að jöfnu við hleranir og aðrar aðgerðir lögreglu sem ganga sýnu lengra inn persónuréttindi almennings en ákvæði 9. gr. gera ráð fyrir. Í tveimur nýlegum dómum Hæstaréttar hefur lögreglu verið synjað um upplýsingar um notenda IP-tölu á þessum grundvelli þrátt fyrir að það væri það eina sem þurfti til að upplýsa um hver framdi verknaðinn. Ef þetta ákvæði nær ekki fram að ganga verður lögreglu gert ókleift að aðhafast vegna brota á netinu nema í alvarlegustu tilvikunum. Ekki eru því lagðar til breytingu á 9. gr."

Persónuvernd leggst gegn framangreindri ákvörðun. Hún bendir á að sá rökstuðningur sem vísað er til stenst ekki samanburð við mikilvægi þess að virða þau sjónarmið sem rakin eru í bréfi Persónuverndar til þingsins, dags. 19. apríl sl. Sé vandinn sá sem vísað er til í framangreindum röksemdum er að mati Persónuverndar eðlilegra að endurskoða viðmiðunarákvæði 86. og 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Mun rökréttara er, að mati Persónuverndar, að áskilja dómsúrskurð fyrir slíkum aðgangi lögreglu að persónuupplýsingum fremur en að víkja frá almennt viðurkenndum og stjórnarskrárvörðum réttindum manna til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt. Í þessu sambandi er enn minnt á að hafa ber í huga grundvallarrétt einstaklinga til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt, sem varinn er af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, og þær meginreglur réttarríkisins sem eiga m.a. að standa vörð um þann rétt. Minnt er á að að jafnaði tekur ekki nema einn til tvo daga, hér á landi, að fá slíkan úrskurð. Þá er minnt á að slíkt skerðir á engan hátt rannsóknarhagsmuni þar sem ip-tölur eru skráðar og aðgengilegar. Hefur ekki verið sýnt fram á nokkur veigamikil rök fyrir því að víkja frá meginreglunni um að dómsúrskurð þurfi.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820