Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Viðurkenning Lífsbrúar fyrir framlag til sjálfsvígsforvarna veitt í fyrsta sinn

4. september 2024

Formleg opnun á vitundarvakningunni Gulur september var haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur 1. september.

Mynd. Gulur september. Handhafar viðurkenningar Lífsbrúar 2024

Ávarp fluttu forseti Íslands Halla Tómasdóttir, heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson og Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur var veislustjóri. Fjölmenni var á opnuninni og var guli liturinn áberandi.

Við þetta tækifæri veitti Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna í fyrsta sinn viðurkenningu til einstaklings og liðsheildar fyrir mikilsvert framlag til sjálfsvígsforvarna á Íslandi, fyrir að auka þekkingu á málefninu og stuðla að bættri heilsu og líðan landsmanna.

Fyrstu handhafar viðurkenningarinnar eru:
  • Í flokki einstaklinga – Wilhelm Norðfjörð

  • Í flokki liðsheildar - Píeta samtökin

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri Lífsbrúar og Willum Þór Þórsson veittu viðurkenningarnar. Wilhelm Norðfjörð tók sjálfur á móti sinni viðurkenningu en Ellen Calmon, framkvæmdastjóri Pieta samtakanna, tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd Píeta.

Í tilefni opnunar árvekniátaksins var einnig geðræktar- og sögugangan Gulu sporin gengin um miðbæinn undir leiðsögn sagnfræðinganna Stefáns Pálssonar og Kristínar Svövu Tómasdóttur. Gangan endaði í vöfflum með gulum rjóma hjá Píeta samtökunum.

Mynd. Gulur september. Geðræktar- og sögugangan Gulu sporin

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Það er von undirbúningshópsins að gulur september auki meðvitund um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna, sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju.

Mynd. Gulur september. Opnunarviðburður 2024

Að gulum september standa fulltrúar frá embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, Lífsbrú, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossinum, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Frekari upplýsingar
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri
gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is