Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Vel sótt málþing um sýklalyfjaónæmi

25. nóvember 2024

Mánudaginn 18. nóvember var haldið málþing á vegum sóttvarnalæknis í tilefni árlegrar vitundarvakningar um sýklalyfjaónæmi á Landspítalanum í Fossvogi og á Teams.

Málþing um sýklalyfjaónæmi 2024

Málþingið var tekið upp til að gera sem flestum kleift að horfa og hlusta á erindin. Margt áhugavert kom fram í erindum og umræðum á málþinginu.

Sýklalyfjanotkun

Síðustu tíu árin hefur heildarsala sýklalyfja á Íslandi minnkað nokkuð en salan dróst mjög saman í COVID-19 faraldrinum þar sem tíðni annarra algengra sýkinga í samfélaginu minnkaði. Um 90% allrar sýklalyfjanotkunar er utan sjúkrahúsa en nýlega birti embætti landlæknis gagnvirkt mælaborð sem sýnir sýklalyfjanotkun utan sjúkrahúsa.

Langstærsti hluti sölu sýklalyfja til stofnana, um 80%, er til Landspítala. Síðustu ár hefur orðið aukning á notkun kefalósporína á sjúkrahúsum, sérstaklega ceftríaxóns. Hlutfall breiðvirkra sýklalyfja af heildarnotkun á sjúkrahúsum hérlendis hefur nær tvöfaldast síðustu fimm ár og var 30% árið 2023. Æskilegt er að nota þröngvirk sýklalyf til að sporna gegn auknu sýklalyfjaónæmi.

Sýklalyfjaónæmi

Þrjár gerðir ónæmra sýkla eru tilkynningarskyldar til sóttvarnalæknis samkvæmt reglugerð: Breiðvirkir beta-laktamasar (BBL), meticillín ónæmur staphylococcus aureus (MÓSA) og vankómýcín ónæmir enterókokkar (VÓE). Greinileg aukning hefur orðið á BBL myndandi sýklum síðustu ár en einnig greindist óvenju mikið af MÓSA og VÓE árið 2023.

Sú gerð BBL myndandi sýkla sem mest ógn stafar af eru karbapenemasa-myndandi sýklar en þeir eru ónæmir fyrir mörgum flokkum mikilvægra sýklalyfja. Áður greindust einstaklingar helst með karbapenemasa myndandi bakteríur eftir sjúkrahúsdvöl erlendis en síðustu ár hafa fleiri greinst sem hafa hvorki ferðast til útlanda né legið á sjúkrahúsi erlendis. Karbapenemasa myndandi bakteríur hafa greinst í ýmsum matvælum en árið 2023 greindust smit eftir inntöku mengaðra sýklalyfjahylkja (Dicillin/Staklox) í Danmörku og á Íslandi. Notkun magasýruhemjandi lyfja eru einn af áhættuþáttum fyrir sýkingar af völdum ónæmra sýkla.

Sýkingavarnir og sýklalyfjagæsla

Mikilvægt er að efla sýkingavarnir, innan og utan sjúkrahúsa. Smitleiðir ónæmra sýkla eru margvíslegar, þar með talið bein snerting milli einstaklinga, yfirborðsfletir, vatn, matvæli og úðasmit. Handþvottur er hornsteinn sýkingavarna á sjúkrahúsum en einnig geta sérbýli og markviss notkun hlífðarbúnaðar hindrað að ónæmar bakteríur berist á milli sjúklinga.

Nauðsynlegt er að styrkja sýklalyfjagæslu en á Landspítala var nýlega skipaður verkefnahópur til þess að styrkja og marka stefnu fyrir sýklalyfjagæslu. Sýklalyfjagæsla er teymisvinna sem krefst aðkomu margra fagstétta en tilgangur sýklalyfjagæslu er að hagræða sýklalyfjameðferð svo að árangur verði sem mestur en neikvæðar afleiðingar sem minnstar. Öflug sýklalyfjagæsla getur dregið úr sýklalyfjaónæmi, fækkað aukaverkunum, lækkað dánartíðni og dregið úr kostnaði.

Aðgengi að sýklalyfjum og sýklalyfjaskortur

Sýklalyfjaskortur er víða vandamál en sérstaklega á Íslandi vegna smæðar markaðar og legu landsins. Mikilvægt er að tryggja lágmarks lyfjabirgðir í landinu, meðal annars með því að skilgreina birgðahald nánar í reglugerðum. Ýmsar ástæður geta verið fyrir skorti á sýklalyfjum, þar á meðal vandamál tengd framleiðslu og dreifingu. Til þess að tryggja nægilegt aðgengi að sýklalyfjum hefur Lyfjastofnun tekið þátt í samnorrænum útboðum sem hafa gefist vel.

Markmið vitundarvakningar

Mikilvægt er að minna almenning, stjórnvöld, heilbrigðisstarfsmenn og aðra aðila á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería en það er einmitt markmið þessarar árlegu vitundarvakningar.

Sóttvarnalæknir

Sjá nánar: