Vel heppnað málþing í tilefni vitundarvakningar um sýklalyfjaónæmi
21. nóvember 2023
Fimmtudaginn 16. nóvember sl. var haldið málþing á vegum sóttvarnalæknis í tilefni árlegrar vitundarvakningar um sýklalyfjaónæmi í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.
Margt áhugavert kom fram í erindum og umræðum á málþinginu. Fundargestir voru sammála um mikilvægi þess að hnitmiðuð og fjármögnuð landsáætlun um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi verði lögð fram sem fyrst.
Íslendingar nota áfram meira af sýklalyfjum en aðrar Norðurlandaþjóðir. Heildarsala sýklalyfja fyrir fólk á Íslandi jókst árið 2022 miðað við tvö árin þar á undan en tímabundið dró úr tíðni annarra sýkinga árin 2020 og 2021 í COVID-19 faraldrinum, sennilega í tengslum við víðtækar sóttvarnaaðgerðir. Sama þróun sást í öðrum Evrópulöndum samkvæmt nýrri grein frá ECDC. Mikilvægt er að minna almenning, stjórnvöld, heilbrigðisstarfsmenn og aðra aðila á þá ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería en það er einmitt markmið þessarar árlegu vitundarvakningar.
Á Íslandi er sýklalyfjanotkun einna mest hjá elstu aldurshópunum og eru þar sýklalyf notuð við þvagfærasýkingum fyrirferðarmikil. Mikilvægt er að stuðla að vönduðu verklagi við greiningu og meðferð þvagfærasýkinga hjá eldra fólki en nýlega voru gefnar út leiðbeiningar í því skyni. Sýklalyf eru einnig umtalsverður hluti af fjöllyfjameðferð sem er algeng hjá öldruðum og eykur hættuna á milliverkunum lyfja.
Það er mikilvægt að styrkja sýklalyfjagæslu hérlendis, ekki síst á sjúkrahúsum. Sýklalyfjagæsla er teymisvinna sem krefst aðkomu margra fagstétta en tilgangur sýklalyfjagæslu er að hagræða sýklalyfjameðferð svo að árangur verði sem mestur en neikvæðar afleiðingar sem minnstar. Öflug sýklalyfjagæsla getur dregið úr sýklalyfjaónæmi, fækkað aukaverkunum, lækkað dánartíðni og dregið úr kostnaði.
Ónæmir sýklar virða engin landamæri og hefur sýklalyfjaónæmi verið nefnt hinn þögli heimsfaraldur (e: silent pandemic). Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mannkyni í dag. Þá samþykkti ráð Evrópusambandsins (ESB) fyrr á þessu ári tilmæli sem miða að því að efla aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi á sviði Einnar heilsu (One Health). Tilmæli ráðsins eiga að stuðla að skynsamlegri notkun sýklalyfja hjá mönnum og dýrum með það að markmiði að draga úr sýklalyfjaónæmi.
Hugtakið Ein Heilsa á vel við sýklalyfjaónæmi því ónæmir sýklar geta borist milli manna, dýra, matvæla og umhverfis. Notkun sýklalyfja fyrir dýr og algengi ónæmra sýkla hefur verið lágt á Íslandi samanborið við önnur Evrópulönd. Almennt hefur sala sýklalyfja fyrir dýr hefur dregist saman hérlendis síðustu ár.
Mikilvægt er að styrkja þverfaglega samvinnu um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi. Fyrir tæpu ári var skipaður starfshópur um aðgerðir hérlendis en verkefnið er unnið í samstarfi heilbrigðis-, matvæla- og umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytis. Starfshópurinn hefur það hlutverk að móta framtíðarsýn í málaflokknum til næstu tíu ára. Þá er hópnum falið að móta aðgerða- og framkvæmdaáætlun í málefnum sýklalyfjaónæmis til næstu fimm ára auk þess að vinna að vitundarvakningu í samfélaginu.
Sjá nánar:
Upptaka frá málþingi: Fyrri hluti og seinni hluti.
Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2022
Starfshópur um aðgerðir til varnar útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería
Grein frá ECDC: Rebound in community antibiotic consumption after the observed decrease during the COVID-19 pandemic, EU/EEA, 2022
Tilmæli frá Evrópusambandinu: Council Recommendation on stepping up EU actions to combat antimicrobial resistance in a One Health approach
Sóttvarnalæknir