Vaxandi sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun í Evrópu
22. nóvember 2024
Ný gögn sem Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) gaf út fyrr í vikunni benda til þess að ríki Evrópusambandsins (ESB) og Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) séu ekki að nálgast markmið sitt um að draga úr sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun.
Staðan á Íslandi
Heildarsala sýklalyfja fyrir menn á Íslandi árið 2023 var svipuð sölu áranna 2019 og 2022 en var töluvert lægri 2020-2021 á meðan COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst. Íslendingar nota meira af sýklalyfjum en aðrar Norðurlandaþjóðir en standa í meðallagi miðað við ESB/EES-ríki. Tíðni ýmissa sýkinga af völdum ónæmra baktería hjá mönnum er lág hérlendis miðað við mörg Evrópuríki en árið 2023 fjölgaði þó tilkynntum tilfellum slíkra sýkinga á Íslandi miðað við síðustu ár.
Þó staðan á Íslandi sé að mörgu leiti góð hvað varðar notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmi er mikið starf óunnið. Miklar vonir eru bundnar við nýja aðgerðaáætlun og áframhaldandi stuðning stjórnvalda og lykilstofnana við þennan málaflokk. Einnig er þátttaka í erlendu samstarfi mikilvæg en sóttvarnalæknir tekur þátt í EU-JAMRAI-2 verkefninu sem er samstarf þrjátíu ESB/EES ríkja um fjölmargar aðgerðir til þess að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis.
Staðan í Evrópu
Notkun sýklalyfja innan og utan sjúkrahúsa í ríkjum ESB/EES jókst um tæp 1% milli áranna 2019 og 2023 og færðist því fjær markmiði ESB um 20% minni sýklalyfjanotkun árið 2030. Þessi aukning átti sér stað þrátt fyrir samdrátt í notkun sýklalyfja árin 2020 og 2021 á meðan COVID-19 faraldurinn stóð sem hæst.
Einna mestar áhyggjur vekur sú staðreynd að tíðni blóðsýkinga af völdum karbapenem-ónæmra Klebsiella pneumoniae sýkla hefur aukist um nær 60% á milli 2019 og 2023. Karbapenem ónæmir sýklar eru nú vaxandi ógn við sjúklinga á sjúkrahúsum um alla Evrópu þar sem fá sýklalyf eru nógu öflug til að meðhöndla sýkingar af þeirra völdum.
Áætlað er að sýkingar af völdum ónæmra sýkla tengist yfir 35.000 dauðsföllum í ríkjum ESB á ári. Einnig valda ónæmir sýklar sýkingum í tengslum við heilbrigðisþjónustu hjá rúmlega 4 milljónum sjúklinga á sjúkrahúsum á ESB-svæðinu árlega.
Þar sem sýkingar sem tengjast heilbrigðisþjónustu eru um 70% af sjúkdómabyrði vegna sýklalyfjaónæmis í ríkjum ESB/EES er nauðsynlegt að sýkingavarnir séu í forgangi hjá heilbrigðisstofnunum. Eins og undanfarin ár er ástandið þó mjög breytilegt milli ríkja ESB/EES en hæsta tíðni sýkinga af völdum ónæmra sýkla er almennt í suður- eða suðausturhluta Evrópu.
Skýrslur ECDC innihéldu einnig þær jákvæðu fréttir að tíðni blóðsýkinga af völdum meticillin-ónæms Staphylococcus aureus (MÓSA) í ríkjum ESB var 17,6% lægri árið 2023 en árið 2019 en markmið ESB fyrir árið 2030 var 15% lægri tíðni. Tíðni blóðsýkinga af völdum Escherichia coli með ónæmi fyrir þriðju kynslóðar kefalósporinum sýklalyfi var einnig lægri árið 2023 en árið 2019.
Sóttvarnalæknir
Frekari upplýsingar á vef ECDC
Markmið ESB fyrir sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi árið 2030 (uppgjör 2024)
Eurosurveillance grein um mælikvarða fyrir sýklalyfjanotkun á sjúkrahúsum
Frekari upplýsingar á vef embættis landlæknis