Útvíkkun forgangshópa vegna inflúensubólusetningar inflúensutímabilið 2022-2023
31. október 2022
Með hliðsjón af reynslu á suðurhveli á nýafstöðnu inflúensutímabili þar hefur sóttvarnalæknir ákveðið að útvíkka forgangshópa sem fá inflúensubóluefni sér að kostnaðarlausu á yfirstandandi inflúensutímabili til barna á aldrinum 6 mánaða til 2,5 árs.
Rök:
Börn á þessu aldursbili hafa fæst komist í tæri við inflúensu þótt hún hafi látið á sér kræla hér á landi sl. vor en inflúensufaraldur hafði þá ekki komið upp á Íslandi frá því á tímabilinu 2019–2020. Ekki er til inflúensubóluefni sem nota má fyrir börn undir 6 mánaða aldri en bólusetning móður á meðgöngu skilar mótefnum til barns sem talin eru veita vernd í a.m.k. 6 mánuði.
Mest hætta á alvarlegum veikindum barna vegna inflúensu er hjá börnum undir tveggja ára aldri.
Í Ástralíu var nýliðið inflúensutímabil langt og strangt skv. kynningu á fundi hjá Sóttvarnastofnun Evrópu. Innlagnir vegna inflúensu voru í 50% tilvika vegna barna (2017 sem var fremur slæmt inflúensutímabil þar var þetta hlutfall 32%. Börn undir 2ja ára eru þar stór hluti.
Fyrirkomulag
1. Átakið mun standa yfir 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2023.
2. Það nær til barna sem fædd eru 1.1.2020 til 30.6.2022 sem koma til heilsugæslunnar í reglulega skoðun á tímabilinu skv. neðangreindu (sjá þó einnig lið 4)
3. Til að byrja með verður inflúensubólusetning boðin í eftirtöldum heimsóknum í ung- og smábarnavernd:
6 mánaða (með NeisVac-C)
8 mánaða (með NeisVac-C)
10 mánaða (engar aðrar reglulega bólusetningar)
12 mánaða (með Pentavac, Synflorix og Varilrix)
18 mánaða (með MMR-VaxPro og Varilrix)
2,5 árs (engar aðrar reglulegar bólusetningar)
4. Ef bóluefni er nægt og áhugi er fyrir bólusetningunni kemur til greina að heilsugæslan á hverjum stað skipuleggi frekari bólusetningartækifæri fyrir börn á þessu aldursbili þótt reglubundin skoðun í ung- og smábarnavernd komi ekki til á þessu tiltekna 3ja mánaða tímabili.
Bóluefni
Notað verður bóluefnið Vaxigrip Tetra, einn 0,5 ml skammtur í vöðva, eins og fyrir fullorðna. Yfirleitt er mælt með að nota tvo skammta með mánaðar millibili fyrir börn undir 9 ára aldri sem fá bólusetninguna í fyrsta sinn þetta tímabil en það verður ekki gert reglubundið í þessu átaki. Börn með áhættuþætti fyrir alvarlegri inflúensu, þ.m.t. börn með astma sem þurfa að nota lyf að staðaldri til að halda niðri einkennum, ættu að fá bóluefnið skv. fylgiseðli.
Aukaverkanir
Aukaverkanir vegna ræsingar ónæmiskerfis eru mjög algengar eftir inflúensubólusetningu, á bilinu 5–15%. Þar er átt við hita, höfuðverk, beinverki o.þ.h. sem vara sjaldan lengur en 2 sólarhringa eftir bólusetningu. Þessar aukaverkanir eru algengastar hjá yngstu börnunum. Börn fá oft ógleði, uppköst og jafnvel niðurgang þegar þau fá hita, þ.m.t. eftir bólusetningu. Eymsli á stungustað eftir inflúensubólusetningu eru óalgengari hjá börnum en fullorðnum en geta komið fram. Nota má hitalækkandi verkjalyf í venjulegum skömmtum skv. umbúðum (parasetamól og/eða íbúprófen) vegna aukaverkana eftir inflúensubólusetningu barna.
Sóttvarnalæknir