Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Uppfært mælaborð um bið eftir hjúkrunarrými

16. nóvember 2023

Mælaborð sem sýnir tölulegar upplýsingar um bið eftir hjúkrunarrými hefur nú verið uppfært á vef embættis landlæknis.

Bið eftir hjúkrunarrými mælaborð

Mælaborðið inniheldur upplýsingar um fjölda sem beið eftir hjúkrunarrými og fjölda sem flutti í hjúkrunarrými á hverjum ársfjórðungi, biðtíma þeirra sem fluttu í hjúkrunarrými á ári hverju og fjölda hjúkrunarrýma í hverju heilbrigðisumdæmi.

Meðalfjöldi sem beið eftir hjúkrunarrými á þriðja ársfjórðungi ársins 2023 var 482 sem er sambærilegur þeim fjölda sem beið á öðrum ársfjórðungi. Heldur færri biðu á fyrsta ársfjórðungi sem og á fjórða ársfjórðungi ársins 2022. Fleiri konur en karlar biðu líkt og áður. Hlutfallslega biðu flestir á Vesturlandi og fæstir á Austurlandi. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 fluttu 703 einstaklingar í hjúkrunarrými. Á sama tímabili á árinu 2022 fluttu 776 í hjúkrunarrými.

Samkvæmt Starfsemisupplýsingum Landspítala biðu 77 einstaklingar með gilt færni- og heilsumat á Landspítala eftir útskriftarúrræði (þ.e. höfðu lokið sjúkrahússmeðferð) í lok september, 17% færri en á sama tíma á árinu 2022.

Í skýrslu frá Heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 2021 um stöðu framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma kom fram að fjölga ætti hjúkrunarrýmum um 250 á höfuðborgarsvæðinu til viðbótar við þau verkefni sem þegar voru á gildandi framkvæmdaáætlun (622 ný rými og bætt aðstaða í 259 rýmum). Von er á uppfærðri framkvæmdaáætlun á næstunni.

Frekari upplýsingar:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is