Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Sjálfsvígsforvarnir á öllum sviðum lykilatriði

13. mars 2024

Forvarnir á öllum stigum eru mikilvægasta verkefni okkar, sagði Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir verkefnastjóri frá Lífsbrú, miðstöð sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis á sálfræðiþingi Sálfræðingafélags Íslands sem haldið var nýlega á Hótel Nordica.

Lífsbrú - lógó - með undirtitli

Í ár var áhersla einmitt lögð á sjálfsvígsforvarnir og aðalfyrirlesari á þinginu var Rory O’Connor prófessor, fræðimaður, rithöfundur og forseti IASP samtakanna.

Guðrún Jóna ítrekaði mikilvægi forvarna á öllum stigum, þ.e. bæði að vinna að því að koma í veg fyrir sjálfsvíg, grípa fólk ef það upplifir sjálfsvígshugsanir og einnig mikilvægi stuðnings í kjölfar sjálfsvígs. Dr. Berglind Guðmundsdóttir, sálfræðingur á Landspítala, sagði frá stöðluðu mati og viðbrögðum við sjálfsvígshættu og þjálfun starfsmanna á spítalanum. Gunnhildur Ólafsdóttir sálfræðingur og fagstjóri Píeta samtakanna sagði frá gagnreyndu meðferðarstarfi og stuðningi samtakanna og dr. Tómas Kristjánsson sálfræðingur talaði um hlutverk sálfræðinga í sjálfsvígsforvörnum og hvatti sálfræðinga til að vera leiðandi í sjálfsvígsforvörnum.

Í upphafi sálfræðiþings var opið fræðsluerindi fyrir almenning sem Dr. Tómas Kristjánsson hélt - samtal um sjálfsvíg. Fræðslan byrjar á mínútu 17.

Mikilvægt er að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við:

  • Hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða á netspjalli 1717.is

  • Símaráðgjöf Heilsuveru/Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar 1700, eða á netspjalli 1700.is

  • Píeta samtökin s.552-2218 – opinn allan sólarhringinn. Píeta samtökin bjóða einnig uppá ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.

  • Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendum við á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð s.551-4141 og hjá Pieta samtökunum s.552-2218.

Frekari upplýsingar
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri