Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Samvinna - Samskipti - Samsköpun: Heildræn nálgun á vellíðan í skólasamfélaginu

25. febrúar 2025

Embætti landlæknis stendur fyrir ráðstefnunni Samvinna - Samskipti - Samsköpun: Heildræn nálgun á vellíðan í skólasamfélaginu.

Merki. Heilsueflandi grunnskóli

Ráðstefnan er hluti af Erasmus+ samstarfsverkefninu SHE4AHA (Schools for Health in Europe 4 Active and Healthy Ageing). Ráðstefnan verður haldin fimmtudaginn 27. febrúar klukkan 9:00-15:00 á Hilton Reykjavík Nordica, og einnig í streymi.

Hvað er SHE4AHA verkefnið?

SHE4AHA er samstarfsverkefni Íslands, Danmerkur, Portúgals, Slóveníu og Frakklands. Þátttakendur í verkefninu eru landstengiliðir nálgunar heilsueflandi skóla í ofantöldum löndum. Verkefnið byggir á áður útgefnu efni frá Samtökum heilsueflandi skóla í Evrópu (SHE, Schools for Health in Europe Network Foundation) með það að markmiði að einfalda og auka aðgengi skóla að stuðningsefni og verkfærum tengdum heilsueflingu í skólastarfi. Gátlistar Heilsueflandi grunnskóla embættis landlæknis voru m.a. hluti af því stuðningsefni sem notað var í verkefninu.

Nálgun Heilsueflandi grunnskóla er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu. Í því felst að skapa skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan nemenda og starfsfólks í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Alls tóku 15 skólar þátt í SHE4AHA verkefninu, þar á meðal þrír íslenskir skólar, Hraunvallaskóli, Fossvogsskóli og Djúpavogsskóli.

Samvinna - Samskipti - Samsköpun

Á ráðstefnunni verður kynning á nýjum, uppfærðum gátlistum Heilsueflandi grunnskóla og þróun á tengingum við Heimsmarkmiðin og Barnasáttmálann. Fjallað verður m.a. um samþættingu verkefna innan skóla og kynning á Heilsueflandi bekk, nýju verkefni á vegum embættis landlæknis. Auk þess munu íslensku þátttökuskólarnir í SHE4AHA verkefninu kynna sínar áherslur í verkefninu og áframhaldandi þróun á þeim. Þar sem lögð var áhersla á vaxtarhugarfar, tengslamyndun, félagsfærni, frímínútur, morgunnesti, grænmetisræktun og samþættingu á hæglæti og heilsueflingu.

Einnig verða erindi frá Unicef á Íslandi (Réttindaskólar - Barnasáttmálinn), Félagi Sameinuðu þjóðanna (UNESCO-skólar - Heimsmarkmiðin) og Landvernd (Grænfáninn).

Skráning og þátttaka

Ráðstefnan er opin öllum og er þátttaka að kostnaðarlausu. Mikilvægt er að skrá sig, bæði fyrir þátttöku á staðnum og í streymi.

Frekari upplýsingar
Lísbet Sigurðardóttir, verkefnastjóri
lisbet.sigurdardottir@landlaeknir.is