Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Samkomulag um hagskýrslugerð

28. mars 2023

Embætti landlæknis og Hagstofa Íslands hafa gert með sér samkomulag varðandi hagskýrslugerð.

Samkomulag um hagskýrslugerð -1

Embætti landlæknis og Hagstofa Íslands hafa gert með sér samkomulag varðandi hagskýrslugerð. Hagstofa Íslands er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar á Íslandi en með samkomulaginu fær embætti landlæknis stöðu viðurkennds opinbers hagskýrsluframleiðanda (e. Other National Authority) á sviði lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu gagnvart Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.

Hingað til hefur embætti landlæknis unnið heilbrigðistölfræði fyrir Eurostat með milligöngu Hagstofu Íslands. Samkomulagið felur það hins vegar í sér að ábyrgð á vinnslu og skilum á opinberri heilbrigðistölfræði flyst yfir til embættis landlæknis. Þá mun embættið einnig framvegis taka þátt, fyrir hönd Íslands, í vinnuhópum á sviði heilbrigðistölfræði hjá Eurostat. Auk þessarar nýju stöðu gagnvart Eurostat er embætti landlæknis í samkomulaginu einnig tilgreint sem ábyrgðaraðili gagnvart OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, hvað varðar tölfræði um lýðheilsu og heilbrigðisþjónustu.

Embætti landlæknis ber ábyrgð, samkvæmt lögum, á að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Embættið skipuleggur og rekur í því skyni fjölmargar skrár á landsvísu, m.a. um heilsufar og sjúkdóma, lyfjanotkun, fæðingar og dánarmein. Gögn úr þessum gagnagrunnum eru helsta uppspretta þeirrar tölfræði sem unnin er fyrir gagnagrunna alþjóðastofnana á borð við Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, OECD og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO.

Samkomulagið var undirritað af Hrafnhildi Arnkelsdóttur hagstofustjóra og Ölmu D. Möller landlækni þann 21. mars 2023.

Landlæknir vill þakka Guðrúnu Kristínu Guðfinnsdóttur verkefnastjóra og Sigríði Haralds Elínardóttur, sviðsstjóra á sviði heilbrigðisupplýsinga, fyrir frábæra vinnu sem og Hagstofu Íslands fyrir góða samvinnu.

Samkomulag um hagskýrslugerð - 2