Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vika 6 2025

13. febrúar 2025

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 6 ársins 2025 (3.-9. febrúar 2025).

Mynd. Mælaborð um öndunarfærasýkingar

Inflúensan er enn í fullum gangi og forgangs- og áhættuhópar eru áfram hvattir til þess að þiggja bólusetningu. Greiningar á RS-veirusýkingu stefna rólega niður á við með svipuðu mynstri og í fyrravetur. Tveir greindust með COVID-19 í síðustu viku. Greiningar á öðrum öndunarfæraveirum voru færri í viku 6 samanborið við vikur 4 og 5.

Eins og áður koma langflest sýni til rannsóknar frá spítölum en færri frá heilsugæslunni.

Inflúensa, RS-veirusýking og COVID-19

Fjöldi greininga á inflúensu sveiflast áfram milli vikna. Samtals greindust 45 einstaklingar í viku 6, þar af 21 með inflúensutegund A(pdm09), 19 með tegund A(H3) og fimm með inflúensutegund B. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en 16 einstaklingar voru í aldurshópnum á 0–4 ára, sem er aukning miðað við undanfarnar vikur. Fimm voru í aldurshópnum 5–14 ára, 13 voru 15–64 ára og 11 voru 65 ára eða eldri.

Tíu einstaklingar voru inniliggjandi á Landspítala með inflúensu í viku 6. Af þeim voru sjö í aldurshópnum 65 ára og eldri og þrír voru 15–64 ára. Þá dvöldu 34 einstaklingar á bráðamóttökum í lengri eða skemmri tíma með inflúensu.

RS-veirusýkingum fer hægt fækkandi. Í viku 6 greindust 20 einstaklingar. Þar af voru sex börn undir eins árs aldri, þrjú á aldrinum 1–2 ára, þrjú á aldrinum 3–14 ára, tveir voru 15–64 ára og sex í aldurshópnum 65 ára og eldri. Svipað og með inflúensu sást aukning á greiningum barna á aldrinum 0–2 ára miðað við undangengnar fjórar vikur.

Tíu einstaklingar lágu á Landspítala með RS-veirusýkingu í viku 6, þar af tvö börn undir eins árs aldri, tvö á aldrinum 1–4 ára, tveir einstaklingar 15–64 ára og fjórir í aldurshópnum 65 ára eða eldri.

Tveir greindust með COVID-19, báðir í aldurshópnum 65 ára og eldri. Einn lá á Landspítala með COVID-19.

Aðrar öndunarfærasýkingar

Færri greindust með öndunarveirur, aðrar en inflúensu, RSV og SARS-CoV-2, í viku 6 samanborið við vikur 4 og 5. Stærstur hluti greindist með rhinoveiru (kvef) og kórónuveirur aðrar en SARS-CoV-2. Hlutfall jákvæðra sýna lækkaði milli vikna og var tæp 40% í viku 6.

Greiningar á Mycoplasma bakteríusýkingu (greiningar lækna óháð rannsóknarniðurstöðu) sveiflast milli vikna en í viku 6 greindust sjö einstaklingar.

Enginn greindist með kíghósta.

Staðan í Evrópu

  • Talsvert er um öndunarfærasýkingar í ríkjum ESB/EES.

  • Faraldur inflúensu er útbreiddur og tíðni innlagna á sjúkrahús er svipuð og þegar fyrri faraldrar hafa verið í hámarki.

  • Staðan á RS veirusýkingum er misjöfn eftir ríkjum. Í sumum ríkjum virðist sem toppi faraldurs hafi verið náð en í öðrum fer hlutfall jákvæðra sýna hækkandi. Innlagnir eru tíðastar meðal barna undir fimm ára og einstaklinga 65 ára og eldra.

  • Tíðni COVID-19 (SARS-CoV-2 sýkinga) er mjög lág í flestum ríkjum ESB/EES.

Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Forvarnir

Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna inflúensu. Bóluefni er enn til hjá birgja og á heilsugæslum. Aðstandendur barna 6 mánaða til 4 ára, einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í forgangs- og áhættuhópum eru áfram hvattir til að þiggja bólusetningu en þessir hópar eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum vegna inflúensu.

Almennar sóttvarnir, við minnum á að:

  • Varast umgengni við aðra sem eru með einkenni sýkingar.

  • Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.

  • Hylja munn og nef við hósta og hnerra.

  • Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.

  • Þvo hendur oft og vel.

  • Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.

  • Íhuga notkun andlitsgrímu í fjölmenni.

  • Grímunotkun í heilbrigðisþjónustu á meðan inflúensufaraldur er í hámarki getur dregið úr útbreiðslu til viðkvæmra einstaklinga.

Sóttvarnalæknir