Öndunarfærasýkingar – Vika 50 2024
19. desember 2024
Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 50 (9.–15. desember 2024).
RS veirusýking
Í viku 50 greindust 80 einstaklingar með RS veirusýkingu, talsvert fleiri en í síðustu viku. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en 30 voru undir eins árs aldri, 16 voru á aldrinum 1–2 ára og 14 voru á aldrinum 65 ára og eldri. Á Landspítala lágu 30 einstaklingar inni með RS veirusýkingu, þar af 11 börn undir eins árs aldri.
Faraldur RS veirusýkingar virðist ætla að verða stærri í vetur en í fyrravetur (veturinn 2023–2024) ef skoðuð eru gögn frá sama tímabili beggja tímabila. Til dæmis greindust 48 einstaklingar í viku 50 í fyrravetur, sem var hæsti vikulegi fjöldi sem greindist þann veturinn, samanborið við 80 einstaklinga í viku 50 nú. Hugsanlegt er að faraldurinn sé fyrr á ferðinni nú og líklegra er að toppi sé ekki náð enn. Fjöldi öndunarfærasýna sem send voru í veirugreiningu var sambærilegur í viku 50 í fyrravetur og í vetur svo aukinn fjöldi tilfella skýrist ekki af auknum fjölda sýna. Þá lágu 15 einstaklingar á Landspítala með RS veirusýkingu í viku 50 í fyrravetur samanborið við 30 nú. Vikulegur fjöldi inniliggjandi á Landspítala með RS veirusýkingu fór hæst í 21 einstakling í fyrravetur, í viku 52.
Inflúensa og COVID-19
Sambærilegur fjöldi greindist með inflúensu í viku 50 og í vikunni á undan eða 22 einstaklingar. Af þeim greindust 10 með inflúensutegund A(pdm09), níu með tegund A(H3) og þrír með inflúensutegund B. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en fimm einstaklingar voru í aldurshópnum 65 ára og eldri og tveir voru yngri en fimm ára. Þrír í aldurshópnum 65 ára og eldri lágu á legudeild á Landspítala með inflúensu. Að auki voru 13 einstaklingar á bráðamóttökum Landspítala með inflúensu í vikunni.
Í viku 50 greindust níu einstaklingar með COVID-19, af þeim voru fimm á aldrinum 65 ára og eldri. Þrír lágu inni á Landspítala með COVID-19 þessa viku, allir 65 ára eða eldri.
Aðrar öndunarfærasýkingar
Af öndunarfæraveirum öðrum en COVID-19, inflúensu eða RS veirusýkingu hélt greiningum á kórónuveirum öðrum en SARS-CoV-2 áfram að fjölga í viku 50. Sem fyrr greindust þó flestir með með rhinoveiru (kvef). Öndunarfærasýnum sem fara í veirugreiningu í viku hverri heldur áfram að fjölga en rúm 300 sýni voru greind í viku 50. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hækkar einnig enn og var 55% í vikunni.
Vikulegur fjöldi klínískra Mycoplasma greininga (greininga læknis óháð rannsóknarniðurstöðu) hefur sveiflast á milli vikna en í viku 50 greindust átta einstaklingar. Greiningum á Mycoplasma fór fjölgandi í upphafi ársins 2024 og fór vikulegur fjöldi hæst í 16 tilfelli í viku 10 (byrjun mars). Greiningum á kíghósta hefur fækkað frá því að faraldur braust út fyrr á þessu ári og hefur enginn greinst undanfarnar tvær vikur.
Staðan í Evrópu
Skörp aukning á greiningum á RS veirusýkingu og inflúensu hefur orðið í ríkjum ESB/EES.
Greindum RS veirusýkingum hefur fjölgað síðastliðnar sex vikur og fylgir svipuðu mynstri og í fyrravetur en faraldurinn var um tveimur vikum seinna að fara af stað í vetur samanborið við í fyrravetur. Frá viku 40 hefur yfir 80% af sjúklingum inniliggjandi á sjúkrahúsi með RS veirusýkingu verið börn undir fimm ára aldri en 11% einstaklingar 65 ára og eldri.
Greiningum á inflúensu hefur farið fjölgandi undanfarnar fjórar vikur og benda gögn til þess að árlegur faraldur sé hafinn. Upphaf faraldurs virðist vera á svipuðum tíma og í fyrravetur og fylgir einnig svipuðu mynstri enn sem komið er. Einstaklingar 65 ára og eldri eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús vegna inflúensu.
Tíðni COVID-19 er áfram heilt yfir á niðurleið eftir aukningu á greiningum í sumar. Einstaklingar í aldurshópnum 65 ára og eldri eru áfram í mestri hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19.
Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.
Forvarnir
Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Haustbólusetningar vegna COVID-19 og inflúensu eru enn í gangi og einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu en þeir eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum.
Þátttaka áhættuhópa í bólusetningum gegn inflúensu hefur verið síðri en vonast var til það sem af er vetri (44% 60 ára og eldri hafa þegið bólusetningu) og er mikilvægt að bæta þar úr.
Við minnum einnig á almennar sóttvarnir, sjá upplýsingar á vef embættis landlæknis.
Sóttvarnalæknir