Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vika 44 2024

7. nóvember 2024

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 44 (28. október – 3. nóvember 2024).

Mynd úr mælaborði um öndunarfærasýkingar

Inflúensa stefnir áfram upp á við, sem er viðbúið fyrir þennan tíma árs. Meirihluti þeirra sem greindust með inflúensu í viku 44 var með inflúensutegund A(H3). Svipaður fjöldi greindist með COVID-19 í viku 44 og vikurnar á undan. Yfir helmingur þeirra sem greindust með COVID-19 og inflúensu var í aldurshópnum 65 ára og eldri.

Aukning varð í greiningum á RS-veirusýkingu, sambærileg aukningu sem varð á sama tíma í fyrravetur. Nánast allir sem greindust með RS-veirusýkingu undanfarnar vikur voru á aldrinum 0-2 ára.

Um helmingur sem greindist með öndunarfæraveiru á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, aðra en SARS-CoV-2 (COVID-19), inflúensu eða RS-veirusýkingu, greindist með rhinoveiru. Fjöldi öndunarfærasýna sem fóru í veirugreiningu hefur verið stöðugur undanfarnar vikur. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hefur þokast upp á við á haustmánuðum og var rúm 34% í viku 44.

Forvarnir

Bólusetningar eru áhrifaríkjasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Haustbólusetningar eru farnar af stað og eru eldri einstaklingar og aðrir áhættuhópar hvattir til þess að þiggja bólusetningu.

Mælaborðið sýnir nú gögn um þátttöku einstaklinga 60 ára og eldri í árlegum inflúensubólusetningum hér á landi. Þátttakan í fyrravetur var dræmri en veturna þrjá þar á undan. Það sem af er vetrinum 2024-2025 hafa 36% einstaklinga í aldurshópnum 60 ára og eldri þegið inflúnesubólusetningu. Þátttakan hér á landi hefur aldrei náð 70% markmiði.

Sóttvarnalæknir