Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Mat á áhrifum aðgengis barna og ungmenna að klámi

8. maí 2023

Embættið landlæknis hefur nú gefið út skýrsluna Mat á áhrifum af stafrænu aðgengi barna og ungmenna að klámi á heilsu þeirra og líðan.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Alþingi samþykkti sumarið 2020 heildstæða þingsályktun sem snýr að forvörnum meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Í áætluninni er að finna markvissar aðgerðir sem eiga að taka á þessum vanda, svo sem með markvissri fræðslu til allra sem starfa með börnum og ungmennum og samantekt námsefnis á einum stað. Fylgjast má með stöðu aðgerða á mælaborði á vef Stjórnarráðsins.

Áætlunin skiptist í sex meginþætti sem innihalda 26 aðgerðir. Ein aðgerðanna snýr að því að meta áhrif aðgengis barna og ungmenna að klámi á heilsu þeirra og líðan. Ábyrgðaraðili er heilbrigðisráðuneytið sem fól embætti landlæknis að útfæra vinnuna. Embættið landlæknis hefur nú gefið út skýrsluna Mat á áhrifum af stafrænu aðgengi barna og ungmenna að klámi á heilsu þeirra og líðan en hún var unnin af starfsfólki embættisins með gögnum frá Rannsóknum og greiningu.

Klámefni, og aðgengi að því hefur breyst mikið á undanförnum árum. Algeng þemu í klámi innihalda kynjamismunun, kynþáttafordóma, ofbeldi, fjandsamlega hegðun og niðurlægingu, sifjaspell, tilfinningalega stjórnun og óraunhæft eða ekkert samþykki. Með auknu netaðgengi hefur almennt og auðvelt aðgengi að klámefni einnig aukist, og eru börn og ungmenni þar ekki undanskilin. Klámiðnaðurinn er risavaxin iðnaður sem veltir milljörðum á hverju ári. Grundvöllur þessa iðnaðar er að halda notendum sínum sem mest við skjáinn.

Í skýrslu þessari má sjá tengsl klámáhorfs við ýmsa vanlíðan barna og ungmenna og þó að ekki sé hægt að fullyrða um orsakatengsl þá vekja þessi tengsl áhyggjur.

Góðu fréttirnar eru þær að meðal drengja virðist mikið klámáhorf hafa minnkað á síðustu árum, en hins vegar er algengara en það var að stelpur horfi á klám.

Vonast er til að þetta mat og þær tillögur sem því fylgja megi nýtast í þeirri vinnu að tryggja markvissa og gagnreynda kynfræðslu svo að börn og ungmenni leiti síður í klámefni til að fá upplýsingar um kynlíf. Þá þarf kynfræðsla að vera hluti af stærra mengi, þar sem kynjafræði, heilsulæsi og miðlalæsi fléttast saman.

Helstu atriði skýrslunnar:

  • Aðgengi að klámefni hefur aldrei verið auðveldara, þekkt er í lýðheilsu að aðgengi hefur áhrif á ýmis konar neyslu.

  • Klámefni er mun grófara en áður var og oft eru konur sýndar sem viljalítil viðfangsefni karla.

  • Rannsóknir tengja áhorf kláms við ýmsa áhættuþætti og verri líðan ungmenna.

  • Meirihluti nemenda í 8. bekk horfir ekki á klám. Hins vegar horfa fleiri þegar komið er í 9. og 10. bekk og enn fleiri í framhaldsskóla. Mun fleiri strákar en stelpur horfa á klám í öllum aldurshópum.

  • Meirihluti stelpna í 8.-10.bekk horfir aldrei á klám en á undanförnum árum hefur klámáhorf meðal þeirra orðið algengara en áður var.

  • Síðustu árin fækkar í hópi stráka sem horfa á klám þrisvar í viku eða oftar, á meðan hópur stráka sem horfir aldrei á klám stækkar. Þetta á bæði við um stráka í 10. bekk og í framhaldsskóla.

  • Mikilvægt er að líta til áhrifa kláms á heildrænan hátt. Verið er að normalisera og upphefja fordóma, ofbeldi og þvinganir. Áhrif þess á neytendur er eitt, en líta verður til þess skaða sem framleiðslan hefur í för með sér.

  • Klámiðnaðurinn er milljarða dollara iðnaður sem hefur hag af því að notendur byrji ungir að horfa og horfi sem mest.

Eftirfarandi atriði eru lögð til grundvallar fyrir frekari vinnu:

A. Markviss kennsla í kynjafræði, kynfræðslu (sem inniheldur kynlífsfræðslu), heilsulæsi og miðlalæsi fyrir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskóla.
B. Fólk sem starfar með börnum hljóti lágmarksþekkingu í þáttum úr lið A í námi sínu og endurmenntun. Kennarar geti sérhæft sig í málaflokkum úr lið A.
C. Sértækar rannsóknir, námsefni og kennsla þarf að vera til fyrir börn með hegðunarraskanir, þroskaraskanir, hinsegin börn og aðra jaðarsetta hópa.
D. Foreldrar þurfa stuðningsefni til þess að geta tekið umræðuna á heimilum og vera betur upplýst um hvaða efni börn og ungmenni hafa aðgang að.
E. Netvarar skipta máli, börn þurfa skýran ramma. Framkvæma þarf aðgerð úr netöryggis-áætlun er varðar aldurstengda aðgangsstýringu að klámefni á netinu.

Frekari upplýsingar:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is