María Heimisdóttir tekin við embætti landlæknis
5. mars 2025
Nýr landlæknir, María Heimisdóttir, hefur tekið til starfa hjá embætti landlæknis.


María lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, MBA námi frá University of Connecticut 1997 og doktorsprófi í lýðheilsu frá University of Massachusetts árið 2002. María starfaði hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 1999 til 2003 og á Landspítala árin 2003 til 2018, meðal annars sem yfirlæknir hagdeildar og framkvæmdastjóri fjármála, auk þess sem hún leiddi þróun rafrænnar sjúkraskrár um árabil.
María var forstjóri Sjúkratrygginga Íslands frá 2018 til 2022 og árin 2023-2024 starfaði hún sem ráðgjafi stýrihóps Nýs Landspítala ohf. fyrir heilbrigðisráðuneytið. Frá því í ágúst á liðnu ári hefur hún verið yfirlæknir á upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún hefur enn fremur sinnt kennslu og rannsóknum samhliða öðrum störfum og er varamaður í háskólaráði HÍ.
Verkefni landlæknis og embættisins eru fjölþætt eins og sjá má í 4. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Meðal þeirra er að veita ráðgjöf til ráðherra, almennings og allra þeirra sem um heilbrigðismál og lýðheilsu fjalla.
Nýr landlæknir mun áfram leggja áherslu á að slík ráðgjöf byggi á gagnreyndri eða bestu þekkingu með hagsmuni sjúklinga, notenda og almennings í fyrirrúmi. Jafnframt vill nýr landlæknir halda áfram þeirri áherslu á öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu sem mótuð hefur verið síðustu ár. Að lokum má nefna að landlækni ber að sinna forvörnum í samstarfi við aðra aðila og munu slík verkefni verða meðal áhersluatriða nýs landlæknis, ekki síst á sviði geðheilsu og langvinnra sjúkdóma.
Til upplýsinga fyrir fjölmiðla
Stjórnarráðið - María Heimisdóttir skipuð landlæknir
Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is