Lýðheilsuvísar 2022 kynntir
13. júní 2022
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi 2022 voru kynntir í sjöunda sinn á Akranesi í dag.
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi 2022 voru kynntir í sjöunda sinn á Akranesi í dag.
Alma D. Möller landlæknir ávarpaði fundinn og talaði um áskoranir í heilbrigðisþjónustu, sem eru m.a. aukin eftirspurn, skortur á starfsfólki og flóknara umhverfi. Til að mæta þessum áskorunum þarf að efla lýðheilsu og forvarnir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er og nýta heilbrigðiskerfið skynsamlega. Í þessu samhengi ræddi hún um áhrifaþætti heilbrigðis og m.a. heilsueflandi nálganirnar sem embættið stýrir n.t.t. Heilsueflandi samfélag, Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólar og Heilsueflandi vinnustaðir. Kom hún sértaklega inn á svefn og kynnti nýjan lýðheilsuvísi um góðan svefn barna í 4. bekk grunnskóla. Hann sýnir að rúmlega 60% nemenda í 4. bekk gengur oft eða alltaf vel að sofna á kvöldin. Hún sýndi einnig stöðuna í 8.-10. bekk grunnskóla sem sýnir að tæplega helmingur nemenda á landsvísu sefur of stutt.
Alma fjallaði einnig um skimanir fyrir krabbameinum. Eins og fram kemur í skýrslu landlæknis fyrr á árinu um krabbameinsskimanir 2021 var þátttaka í skimunum heldur lakari árið 2021 en árin tvö á undan og eiga erfiðleikar í upphafi árs 2021 án efa þátt í að skýra það. Framkvæmd skimana fyrir bæði krabbameini í leghálsi og brjóstum hefur hins vegar slípast til. Framundan er það verkefni að bæta framkvæmdina enn frekar og sérstaklega að bæta mætingu kvenna sem er frumskilyrði þess að lýðgrunduð skimun skili þeim árangri sem til er ætlast. Heildardánartíðni vegna krabbameina hélt áfram að lækka á fimm ára tímabilinu 2017-2021 eins og hún hafði gert fimm ára tímabilin þar á undan.
Lýðheilsuvísar tengdir samfélaginu og heilsu og sjúkdómum
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs, kynnti vísa tengdum samfélaginu og heilsu og sjúkdómum. Samkvæmt Sigríði mátu marktækt fleiri fullorðnir andlega heilsu sína sæmilega eða lélega árin 2020 og 2021 miðað við árið 2019. Þá hefur komum á heilsugæslustöðvar vegna geð- og atferlisraskana á hverja 100 íbúa fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár, ef undan er skilið árið 2020, þegar aðgengi að heilbrigðisþjónustu var hvað mest takmarkað vegna heimsfaraldurs COVID-19. Sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta hefur almennt ekki verið veitt innan heilsugæslunnar en síðustu fimm ár hefur sá þáttur aukist í samræmi við markmið stjórnvalda um að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðisþjónustunnar. Skráðum komum á heilsugæslustöðvar vegna geð- og atferlisraskana hefur fjölgað hvað mest á Vestfjörðum og Austurlandi.
Sigríður greindi frá því að sykursýki væri einn af fjórum stóru flokkum langvinnra sjúkdóma sem valda hvað mestri sjúkdómsbyrði. Talið er að 10-15% sykursjúkra séu með sykursýki af tegund I en meirihlutinn, eða um 85-90%, sé með tegund II. Sýnt hefur verið fram á að koma má í veg fyrir stóran hluta tilfella sykursýki af tegund II með heilbrigðu mataræði og hreyfingu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um algengi sykursýki eftir búsetusvæðum á Íslandi. Notkun blóðsykurslækkandi lyfja, annarra en insúlíns, sem notuð eru við sykursýki af tegund II gefa hins vegar vísbendingar um tíðni sjúkdómsins. Þannig hefur notkun blóðsykurslækkandi lyfja aukist á landinu í heild og í öllum heilbrigðisumdæmum, einkum á síðustu tveimur árum, sem gefur vísbendingu um aukna tíðni sjúkdómsins og tengdra áhrifaþátta.
Lýðheilsuvísar tengdir líðan og lifnaðarháttum
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, kynnti vísa tengdum líðan og lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að líðan hefur almennt farið versnandi. Áfram dregur úr hamingju fullorðinna en hlutfall mjög hamingjusamra lækkaði markvisst milli áranna 2019 og 2020 þegar það fór í fyrsta skipti undir 60%. Hlutfall hamingjusamra unglinga í 10. bekk hefur heldur aldrei verið lægra og mælist nú undir 80% sem er marktæk lækkun frá síðustu mælingu sem var gerð árið 2018. Mikilvægt er að huga vel að þessu og skoða hvað hægt er að gera til að snúa þessari þróun við. Bresk stjórnvöld hafa reiknað út að lækkun um eitt stig á hamingjukvarða kostar samfélagið 13.000 pund á einstakling á ári eða sem svarar rúmum 2 milljónum íslenskra króna. Andleg heilsa framhaldsskólanema stendur í stað á milli ára en minna en helmingur framhaldsskólanema metur andlega heilsu sína góða. Einmanaleiki hefur vaxið jafnt og þétt síðan mælingar hófust árið 2016 en árið 2021 sögðust tæplega 13% fullorðinna finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika.
Almennt eru ekki vísbendingar um miklar breytingar í hreyfingu barna og ungmenna undanfarin ár. Á meðal grunnskólabarna má þó merkja minni notkun virks ferðamáta og einnig örlítið minni þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi í elstu aldurshópunum. Hlutfall framhaldsskólanema sem stundar erfiða hreyfingu eykst. Hlutfall fullorðinna sem hreyfa sig lítið jókst tímabundið árið 2020 en er að lækka aftur. Það sama á við um notkun virks ferðamáta á meðal fullorðinna, sú breyting sem varð árið 2020 er að ganga til baka.
Rúm 10% fullorðinna sögðust borða grænmeti og ávexti fimm sinnum á dag árið 2021 en þetta hlutfall var rúm 9% árið 2020. Eins og áður er nokkur munur milli heilbrigðisumdæma og er hlutfallið lægst á Vestfjörðum, aðeins 4,3%, en hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 11,5%. Grænmeti og ávextir eru mikilvægur hluti af hollu mataræði. Neysla þess minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki af tegund II og ýmsum tegundum krabbameina, auk þess að stuðla að heilsusamlegri líkamsþyngd. Ráðlagt er að borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500 grömm samtals. Samkvæmt niðurstöðum skólaheilsugæslunnar tók einungis tæplega helmingur sex ára barna lýsi eða D-vítamín daginn sem spurt var árið 2021 og er það svipað hlutfall og árin á undan. Það er sérstaklega mikilvægt að minna foreldra/forráðamenn 6 ára barna á að gefa börnum sínum D-vítamíngjafa þar sem mörg hver þeirra hafa fengið lýsi í leikskólanum og hafa því ekki þurft að huga að D-vítamíngjöfum fyrir börnin sín nema um helgar og í fríum.
Þeim fullorðnu, sem drukku gosdrykki (sykraða og sykurlausa samanlagt) daglega eða oftar, fjölgar úr 24% 2020 í 26% 2021 (þó ekki marktæk aukning). Þá drakk rúmlega fjórðungur framhaldsskólanema orkudrykki 4 sinnum í viku eða oftar árið 2021. Ofneysla koffíns getur haft neikvæð áhrif á hjarta- og blóðrásarkerfi, sem og taugakerfi. Algengar aukaverkanir ofneyslu eru hjartsláttartruflanir, svefnleysi, skaðleg áhrif á fóstur og mögulega kvíði. Hér á landi eru gos- og orkudrykkir undanþegnir hefðbundnum virðisaukaskatti, sem fer þvert gegn öllum lýðheilsuráðleggingum. Rannsóknir sýna sterka fylgni milli gosdrykkjaneyslu og neyslu annarrar óhollustu, sem og fylgni við langvinna sjúkdóma.
Í heildina virðist heldur hafa dregið úr áhættudrykkju fullorðinna meðan heimsfaraldur COVID-19 stóð sem hæst, þó það sé aðeins misjafnt milli umdæma en sjá má aukningu á Vestfjörðum og Norðurlandi árið 2021. Gera má ráð fyrir að þær samfélagslegu takmarkanir sem voru í gildi meðan heimsfaraldurinn stóð sem hæst, t.d. á skemmtanahaldi, hafi haft einhver áhrif á áfengisdrykkju. Á það sérstaklega við árið 2020, en nokkur aukning varð svo aftur á áfengisdrykkju árið 2021 og í heildina er staðan orðin svipuð og fyrir COVID-19. Þá er einnig ánægjulegt að sjá að langflest ungmenni hafa aldrei notað ólögleg vímuefni. Yfir landið allt segjast 81,4% framhaldsskólanema aldrei hafa notað ólögleg vímuefni. Hæst er hlutfallið á Norðurlandi, 86%.
Nýting lýðheilsuvísa á Vesturlandi
Alma, Sigríður og Dóra ræddu allar um mikilvægi þess fyrir samfélög að rýna vísana fyrir sitt heilbrigðisumdæmi, sjá hvað er vel gert og hvar séu tækifæri til umbóta.
Jóhanna Fjóla Jóhannsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands kynnti notagildi lýðheilsuvísa á Vesturlandi. Þar eru lýðheilsuvísar m.a. notaðir til stuðnings við stefnumótun, forgangsröðun aðgerða og til að fylgjast með þróun og breytingum yfir tíma. Í því samhengi nefndi hún einnig heilsueflandi nálganir embættis landlæknis og hve góður stuðningur þær væru í heilsueflingarstarfi almennt.
Að lokum talaði Jóhanna Fjóla um góðan árangur m.a. í tóbaksvörnum og minnti á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir nýjum áskorunum og huga vel að forvörnum á öllum æviskeiðum.