Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Lýðheilsa, hamingja og velsæld verða í brennidepli á 13. Norrænu lýðheilsuráðstefnunni og 10. Evrópuráðstefnunni um jákvæða sálfræði

27. júní 2022

Af hverju eru Norrænar þjóðir meðal hamingjusömustu þjóða heims ár eftir ár? Hvernig er hægt að stuðla að vellíðan í lífi, leik og starfi? Hvaða áhrif hefur núvitundarþjálfun á heilastarfsemi? Hvernig nýtast verkfæri jákvæðrar sálfræði í skólastarfi og hvað gerir mannlegt líf þess virði að lifa því? Allt eru þetta spurningar sem velt verður upp á ráðstefnunum sem fram fara í Hörpu dagana 28. júní til 2. júlí nk.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Helstu sérfræðingar heims á sviði hamingju, núvitundar, velsældar og lýðheilsu munu flytja erindi og segja m.a. frá áskorunum, tækifærum og árangri á þessum sviðum. Auk þess að hlýða á erindi fyrirlesara gefst þátttakendum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttri hliðardagskrá þar sem áhersla er lögð á vellíðan s.s. núvitund, jóga, gong í Nauthólsvík og gönguferðum. Þetta verður því sannkölluð velsældarveisla þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Nú þegar hafa yfir þúsund þátttakendur skráð sig á ráðstefnurnar og enn er hægt að tryggja sér miða. Frekari upplýsingar um ráðstefnurnar, skráningu, dagskrá og aðalfyrirlesara er að finna á heimasíðu þeirra www.ecpp2020.com

Í tengslum við Evrópuráðstefnuna í jákvæðri sálfræði fara fram vinnustofur miðvikudaginn 29. júní þar sem farið verður yfir fjölbreytt efni s.s. markþjálfun, núvitund, styrkleika, seiglu í skólastarfi og fleira. Skráning á vinnustofurnar er í fullum gangi og eru þær opnar öllum gegn gjaldi, ráðstefnugestum sem og öðrum. Upplýsingar um vinnustofurnar er að finna hér.

Mánudaginn 27.júní verður haldin lokaráðstefna fyrir samnorræna verkefnið um fyrstu þúsund daga barnsins, en uppselt er á þá ráðstefnu. Yfirskrift ráðstefnunnar er „The first 1000 days in the Nordic Countries – Supporting a Healthy Start in Life“.

Samhliða Norrænu lýðheilsuráðstefnunni verður einnig haldin árleg Norræn málstofa um áfengis- og vímuvarnir en um er að ræða lokaða málstofu þar sem Norrænir sérfræðingar deila þekkingu og reynslu. Hluti þeirra sérfræðinga munu vera með erindi og taka þátt í pallborðsumræðum á Norrænu lýðheilsuráðstefnunni.

Fyrir hönd ráðstefnunefndanna,
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs