Kynning á endurskoðuðum ráðleggingum um hreyfingu og opnun Lífshlaupsins
6. febrúar 2024
Endurskoðuð útgáfa opinberra ráðlegginga um hreyfingu og takmörkun kyrrsetu fyrir Ísland verður kynnt miðvikudaginn 7. febrúar kl. 12-13.
Samhliða verður Lífshlaupið 2024 opnað. Landlæknir stýrir fundinum og auk kynningar á ráðleggingunum flytja forseti Íslands, heilbrigðisráðherra og forseti ÍSÍ ávörp.
Ráðleggingarnar byggja á alþjóðlegum ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem komu út undir lok árs 2020 auk þess sem meðal annars er horft til amerísku ráðlegginganna (2018) og aðlögunar annarra Norðurlanda. Útgáfan er afrakstur vinnu faghóps á vegum embættis landlæknis sem í eiga sæti sérfræðingar frá embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri.
Helstu breytingar frá fyrri ráðleggingum frá árinu 2008:
Þessi útgáfa inniheldur ekki aðeins ráðleggingar um hreyfingu heldur einnig sjálfstæðar ráðleggingar um takmörkun kyrrsetu.
Ráðleggingar sem beinast sérstaklega að hinum fjölbreytilega hópi fatlað fólk eru nú í fyrsta sinn liður í ráðleggingunum.
Önnur helsta breytingin snýr að aldurshópunum fullorðnir og eldra fólk – þar hefur lykilráðleggingin breyst úr því að vera minnst 30 mínútur af rösklegri hreyfingu samtals á dag, alla daga vikunnar, í minnst 150 mínútur (2,5 klst.) af rösklegri hreyfingu samtals á viku (auk annarra leiða til að uppfylla viðmiðin).
Áfram er lögð áhersla á að börn og ungmenni hreyfi sig reglulega og stundi rösklega til kröftuga hreyfingu í minnst 60 mínútur á dag en nú er miðað við að því sé náð að meðaltali yfir vikuna.
Enn meiri áhersla er lögð á styrkþjálfun allra hópa, ekki síst eldra fólks. Hreystihópur 67+ er einmitt nýr þátttökuhópur í Lífshlaupinu í ár.
Nú er ekki lengur miðað við að röskleg eða kröftug hreyfing þurfi að vara í minnst 10 mínútur til að telja, nú telja allar mínútur í hreyfingu af þessari ákefð.
Almennt er rík áhersla á að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma og ávallt er betra að hreyfa sig lítið eitt en ekki neitt: Takmörkum kyrrsetu – öll hreyfing skiptir máli.
Öll áhugasöm geta fylgst með viðburðinum í beinu streymi:
Nánari upplýsingar um ráðleggingarnar og Lífshlaupið
Gígja Gunnarsdóttir og Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, verkefnastjórar hjá embætti landlæknis