Hettusótt – hópsýking á höfuðborgarsvæðinu
18. febrúar 2024
Á undanförnum tveimur vikum hafa fjórir einstaklingar greinst með hettusótt á höfuðborgarsvæðinu. Voru þetta tveir óbólusettir fullorðnir einstaklingar og tvö bólusett börn. Náin tengsl voru á milli þeirra.
Það tekur yfirleitt um 3 vikur fyrir einkenni hettusóttar að koma fram eftir að smit á sér stað. Búast má við að fleiri tilfelli gætu komið fram á næstu dögum. Heilsugæslan skipuleggur nú bólusetningar í nærumhverfi einstaklinganna.
Hettusótt er mjög smitandi veirusýking sem leggst oftar á börn en fullorðna. Hettusótt smitast í nánd með dropasmiti við hnerra eða hósta og snertingu yfirborða sem dropar hafa lent á. Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum, sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum. Þau sem fá hettusótt fá sjúkdóminn yfirleitt bara einu sinni.
Engin meðferð er til við hettusótt en besta fyrirbyggjandi vörnin er með bólusetningu. Hér á landi er almennt bólusett gegn hettusótt við 18 mánaða og 12 ára aldur, með bóluefni sem inniheldur einnig bóluefni gegn mislingum og rauðum hundum (MMR). Bóluefnið veitir tæplega 90% vörn gegn hettusótt eftir tvo skammta en um 97% vörn gegn mislingum.
Eftir að farið var að bólusetja gegn hettusótt árið 1989* var sjúkdómnum nánast útrýmt á Íslandi en þó komu hér upp hópsýkingar árin 2005–2006 og 2015–2016. Síðan þá hafa greinst fá tilfelli ár hvert; síðast árið 2020 þegar eitt tilfelli greindist.
Hópsýking eins og þessi minnir okkur á mikilvægi bólusetninga og jafnframt á þá staðreynd að hér geta brotist út faraldrar gegn ýmsum sjúkdómum sem hægt er að bólusetja gegn ef þátttakan er undir markmiðum.
Þau sem eru fædd eftir 1980 og telja sig hafa verið í nærumhverfi við smitaðan einstakling undanfarið, eru óbólusett og hafa ekki fengið hettusótt áður, geta fengið ráðgjöf um bólusetningar hjá heilsugæslunni í gegnum netspjall Heilsuveru eða í síma 1700.
Þau sem hafa þegar klárlega verið útsett fyrir hettusótt, á heimili, á mannamóti, í skóla eða í starfi, á ekki að bólusetja strax, heldur eiga þau að sinna sóttvörnum og forðast fjölmenni í 3 vikur frá útsetningu. Sjá nánar tilmæli um smitvarnir á vef embættis landlæknis.
Athugið að rafræn skráning bólusetninga hófst á bilinu 2002–2004 en upplýsingar um bólusetningar fyrir það eru ekki samræmdar eða skráðar miðlægt og þá aðeins að finna hjá einstaklingunum sjálfum.
Sjá einnig hverjir ættu að fá og hverjir ættu ekki að fá bólusetningu núna vegna hettusóttar.
Á vef embættis landlæknis má lesa nánar um hettusótt.
Sóttvarnalæknir
*Hins vegar var bólusett fyrr við mislingum eða frá 1976 (með einþátta bóluefni).