Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Grunur um nýja bakteríusýkingu í hundum hér á landi

26. júlí 2022

Matvælastofnun hefur borist tilkynning um grun um Brucella canis bakteríusýkingu í hundi. Grunur um slíka sýkingu hefur ekki komið upp áður hér á landi. Brucella canis er súna, en súna er sjúkdómur sem getur smitast á milli dýra og manna. Tekið skal fram að smit í fólk af völdum Brucella canis er sjaldgæft.

Landlæknir logo

Matvælastofnun hefur borist tilkynning um grun um Brucella canis bakteríusýkingu í hundi. Grunur um slíka sýkingu hefur ekki komið upp áður hér á landi. Brucella canis er súna, en súna er sjúkdómur sem getur smitast á milli dýra og manna. Tekið skal fram að smit í fólk af völdum Brucella canis er sjaldgæft.

Helstu einkenni sjúkdómsins hjá hundum eru fósturlát seint á meðgöngutíma, andvana eða veikburða hvolpar sem oft deyja fljótlega og bólgur í eistnalyppum hjá rökkum. Helsta smitleiðin milli dýra er pörun en náið samneyti milli hunda getur einnig valdið smiti.

Fáum tilfellum af Brucella canis sýkingu í fólki hefur verið lýst. Einkenni geta verið hiti, hrollur, vanlíðan, lystarleysi, bein- eða vöðvaverkir og eitlastækkanir. Einkennin geta komið fram eftir nokkra daga eða jafnvel mánuði. Þau geta einnig horfið og komið aftur. Börn yngri en 5 ára, ónæmisbældir einstaklingar og þungaðar konur eru talin vera í meiri hættu á alvarlegri sýkingu. Helsta áhættan á smiti í fólk er frá vessum og vefjum dýra við fæðingarhjálp hjá sýktum tíkum. Dýralæknar og hundaræktendur eru því líklegastir að verða útsettir fyrir smiti. Sjúkdómurinn smitast almennt ekki milli manna.

Gripið hefur verið til aðgerða svo sem tilmæla til viðeigandi aðila um heimasóttkví dýra og pörunarbann þar sem við á. Einnig er unnið að söfnun faraldsfræðilegra upplýsinga og sýnatökum. Aðgerðir miðast við að koma í veg fyrir dreifingu sjúkdómsins á meðan beðið er eftir staðfestingu greiningar. Tvær vikur geta liðið áður en endanleg niðurstaða rannsókna liggur fyrir. Búið er að hafa samband við þá aðila sem taldir eru líklegastir til að vera útsettir fyrir smiti og þeim gefnar leiðbeiningar.

Brýnt er að hundaræktendur gæti fyllstu smitvarna við fæðingarhjálp hjá hundum sínum og hafi ávallt samband við dýralækni ef þeir verða varir við einhver óeðlileg einkenni tengd meðgöngu eða goti, eins og fósturláti seint á meðgöngu eða andvana/veikburða hvolpa.

Sóttvarnalæknir
Matvælastofnun

Ítarefni

Samantekt á Brucella canis frá Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni og samstarfsaðilum