Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Fyrstu tilfelli apabólu að líkindum verið greind á Íslandi

9. júní 2022

Í gær greindust tveir einstaklingar á miðjum aldri með apabólu á fyrsta prófi. Sýni verða send til útlanda eins fljótt og verða má til að staðfesta greininguna. Yfirgnæfandi líkur eru á að greiningin sé rétt. Smitin má rekja til ferðalags til Evrópu en hvorugur er alvarlega veikur.

Landlæknir logo

Í gær greindust tveir einstaklingar á miðjum aldri með apabólu á fyrsta prófi. Sýni verða send til útlanda eins fljótt og verða má til að staðfesta greininguna. Yfirgnæfandi líkur eru á að greiningin sé rétt. Smitin má rekja til ferðalags til Evrópu en hvorugur er alvarlega veikur.

Eins og kom fram í fréttatilkynningum sóttvarnalæknis 20. og 23. maí sl. þá er apabóla ekki bráðsmitandi veirusjúkdómur heldur smitast hún aðallega við nána og langvarandi snertingu eins og kynmök en einnig með dropum frá öndunarvegi. Þá getur smit borist með fatnaði, handklæðum og rúmfötum.

Um þrjár vikur geta liðið þar til sýktur einstaklingur hættir að smita en smithættan er yfirstaðin þegar síðasta blaðra á húð er gróin. Á meðan að viðkomandi er smitandi þá þarf hann að vera í einangrun. Einstaklingar sem útsettir eru fyrir smiti þurfa að vera í smitgát í allt að þrjár vikur.

Allir sem fá bólur eða blöðrur á húð, sérstaklega á kynfærum eða svæði aðlæg kynfærum, eru hvattir til að fara í einangrun og hafa samband símleiðis við húð- og kynsjúkdómadeild eða göngudeild smitsjúkdóma Landspítala eða heilsugæsluna til að fá nánari ráðleggingar um greiningu og meðferð. Enn og aftur er fólk hvatt til að forðast náin samneyti við ókunnuga þ.m.t. kynmök, sérstaklega á ferðum sínum erlendis.

Helsta leiðin til að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu á apabólu hérlendis er að forðast þær smitleiðir/áhættur sem leitt geta til smita og að leita sér greiningar eins snemma í sjúkdómsferlinu og hægt er.

Heilbrigðisráðuneytið, í samráði við Lyfjastofnun, vinnur að því að fá hingað veirulyf og bóluefni sem gætu gagnast völdum einstaklingum gegn sýkingunni.

Nánari upplýsingar um greiningu og meðferð apabólu má finna á vef embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir