Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum: Stefnumótunartillögur komnar út.

2. mars 2022

Ný skýrsla; The First 1000 Days in the Nordic Countries: Policy Recommendations er komin út í tengslum við norrænt samstarfsverkefni sem embætti landlæknis leiðir fyrir Íslands hönd, Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Ný skýrsla; The First 1000 Days in the Nordic Countries: Policy Recommendations er komin út í tengslum við norrænt samstarfsverkefni sem embætti landlæknis leiðir fyrir Íslands hönd, Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum. Verkefnið er unnið samstarfi milli Íslands, Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands og var sett á fót árið 2019 í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Verkefnið snýr að því að skoða hvernig Norðurlöndin hlúa að velferð og vellíðan barna á fyrstu æviárunum í gegnum meðgönguvernd, ung- og smábarnavernd, leikskóla og tengd þjónustukerfi. Fyrir liggja tvær skýrslur sem verkefnið hefur skilað af sér, annars vegar umfangsmikil stöðugreining þar sem styrk- og veikleikar Norðurlandanna á þessu sviði voru kortlagðir, og hins vegar vísindaleg yfirferð yfir rannsóknir að baki úrræðum og mælitækjum sem nýtt eru í vinnu með börnum og fjölskyldum á meðgöngu og fyrstu árum ævinnar.

Tillögur um hvernig megi styðja betur við geðheilsu ungra barna og heilbrigt upphaf

Í þessari nýju skýrslu er farið yfir helstu niðurstöður verkefnisins og lagðar fram stefnumótunartillögur til norrænna stjórnvalda um hvernig megi styðja betur við geðheilsu ungra barna og heilbrigt upphaf í lífinu. Tillögurnar snúa að eftirfarandi sex meginatriðum:

  • Viðurkenna mikilvægi fyrstu 1000 daga lífsins fyrir geðheilsu og vellíðan ævina á enda.

  • Veita alhliða stuðning fyrir foreldra á meðgöngu og fyrstu æviárum barna.

  • Finna og bregðast kerfisbundið við áhættuþáttum snemma á lífsleiðinni.

  • Bæta jöfnuð og gæði í þjónustu við ung börn og fjölskyldur þeirra.

  • Efla samstarf kerfa í þágu ungra barna og fjölskyldna þeirra.

  • Efla rannsóknir, þekkingu og skilning á fyrstu 1000 dögum lífsins.

Þann 27. júní nk. verður lokaráðstefna verkefnisins haldin í Hörpu í Reykjavík. Yfirskrift hennar er The First 1000 days in the Nordic Countries – Supporting a Healthy Start in Life og verður opnað fyrir skráningu fljótlega á www.first1000days.is

Fyrri skýrslur úr verkefninu má finna hér:

Sigrún Daníelsdóttir og Jenný Ingudóttir,
verkefnisstjórar á lýðheilsusviði