Forseti Íslands verður verndari árlegs Velsældarþings
23. desember 2024
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, verður verndari árlegs Velsældarþings (Wellbeing Economy Forum) sem fram fer í Hörpu dagana 8. og 9. maí, 2025.
Með því vill forsetinn styðja við og vekja athygli á mikilvægi þess að innleiða velsældarhagkerfi. Velsældarþingið hefur vakið athygli víða um heim á frumkvöðlastarfi Íslands á þessu sviði. Íslensk stjórnvöld hafa frá 2018 verið þátttakendur í samstarfi nokkurra ríkja um velsældarhagkerfi, Wellbeing Economy Governments (WEGo), ásamt Finnlandi, Kanada, Skotlandi, Nýja-Sjálandi og Wales.
Embætti landlæknis skipuleggur þingið í samvinnu við fjölmarga innlenda og erlenda aðila svo sem forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök íslenskra sveitarfélaga og Festu - miðstöð um sjálfbærni, sem og alþjóðlega aðila svo sem WEGo, Efnahags- og framfarastofnunina (OECD), Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO-Europe og Healthy Cities), Samtök um velsældarhagkerfi (WEAll), Club of Rome og Earth for All. Þingið er styrkt af Evrópusambandinu. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsu hjá embætti landlæknis og brautryðjandi á sviði velsældarmála hér á landi, stýrir þinginu. Verkefnastjóri Velsældarþings er Elín Hirst, fyrrverandi alþingismaður og fréttastjóri.
Á Velsældarþinginu koma saman stjórnmálamenn, fræðimenn, fulltrúar fyrirtækja, sveitarfélaga og ýmissa stofnana. Markmiðið er að stuðla að samvinnu um mótun velsældarhagkerfis, greiða fyrir innleiðingu þess sem og að dýpka skilning á hugtakinu velsældarhagkerfi. Með innleiðingu velsældarhagkerfis er átt við að litið sé til mun fleiri þátta til þess að meta lífskjör og lífsgæði en rúmast innan hefðbundinna efnahagslegra mælikvarða. Má þar nefna þætti eins og húsnæðisöryggi, líkamlega og andlega heilsu, umhverfi, lífsánægju, borgaralega þátttöku, öryggi samfélagsins og jafnvægi vinnu og einkalífs.
Þess má geta að nýtt meistaranám í Velsældarfræðum, Wellbeing Science, var eitt verkefna sem hlaut styrk úr Samstarfssjóði háskóla á dögunum, eða 61 milljón króna. Meistaranámið er samstarfsverkefni HR, HÍ, HA, embættis landlæknis og Surrey háskóla á Englandi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla- og nýsköpunarráðherra tilkynnti um úthlutunina.
Frekari upplýsingar
Elín Hirst, verkefnastjóri
elin.hirst@landlaeknir.is