Fleiri börn greinast með E. coli sýkingu tengda leikskóla í Reykjavík
25. október 2024
Nú hafa alls 23 börn tengd leikskólanum Mánagarði í Vesturbæ Reykjavíkur greinst með E. coli (STEC) sýkingu á PCR-prófi. Sýni eru einnig send í sýklaræktun á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til staðfestingar, sem tekur lengri tíma.
Ekki hafa borist nein sýni frá starfsmönnum skólans til rannsóknar. Leikskólanum var lokað þegar málið kom upp og er hann áfram lokaður.
Alls eru 27 börn undir eftirliti Landspítala eins og er. Af þeim eru nú 2 börn inniliggjandi vegna sýkingarinnar og bæði á gjörgæslu.
Viðbrögð og rannsókn á uppruna sýkingar
Rannsókn á uppruna sýkingarheldur áfram en líklegur uppruni STEC sýkingar er frá matvælum þó ekki takist alltaf að sýna fram á það. Slíkar rannsóknir taka hins vegar tíma. Stýrihópur með fulltrúum sóttvarnalæknis, umdæmislækni sóttvarna á höfuðborgarsvæðinu, heilbrigðiseftirliti, Matvælastofnun, MATÍS og sýklafræðideild Landspítala er virkur. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fer með rannsókn á matvælum sem tengjast þessu máli og er leikskólanum til ráðgjafar varðandi verklag við matargerð, þrif og fleira.
E. coli og matvælaöryggi
Á vef Matvælastofnunar (MAST) er minnt á að STEC er hluti af þarmaflóru dýra hérlendis og getur því verið í kjöti. Skimun MAST í íslensku kjöti árið 2019 sýndi að gen STEC finnast í um 30% sýna af lambakjöti og um 11,5% af nautakjöti. Eins og víða annars staðar, virðast þessar bakteríur vera hluti af náttúrulegri örveruflóru nautgripa og sauðfjár. Fyrirbyggjandi aðgerðir sem minnka líkur á að kjöt mengist eru því mikilvægar svo sem hreinlæti við slátrun.
Til þess að drepa STEC og aðrar sjúkdómsvaldandi örverur verður að steikja eða grilla steikur við háan hita og hamborgara og aðra rétti úr hakki þarf að elda í gegn eða þannig að kjarnahitastig sé að minnsta kosti 75°C. (Kjúklinga- og svínakjöt á einnig alltaf að gegnumsteikja vegna hættu á salmonellu.)
Ráðgjöf til fjölskyldna barna
Leiðbeiningar til foreldra barna sem tengjast hópsýkingu af völdum E. coli (STEC) eru meðal annars:
Ef barn er algjörlega einkennalaust þá má það gera allt eins og venjulega . Passa þarf vel handþvott og almennt hreinlæti sérstaklega kringum klósettferðir og bleiuskipti ef það á við. Góð regla er að þvo alltaf hendur vel fyrir og eftir mat. Athugið að einkenni geta verið mismikil og smitaður einstaklingur getur verið einkennalaus.
Ef barn er með lítil eða væg einkenni iðrasýkingar þá skal hafa samband við upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700 til að fá frekari leiðbeiningar. Mikilvægt er að barnið drekki vel og sent verði saursýni til rannsóknar.
Ef barn er með mikil einkenni iðrasýkingar svo sem svæsinn niðurgang eða blóðugan niðurgang, uppköst eða kviðverki eða er slappt og meðtekið þá hafa samband við bráðamóttöku barna á Landspítala .
Sóttvarnalæknir
Sjá nánar:
Vefur embættis landlæknis: Smitsjúkdómar A-Ö (um E. coli)
Vefur Matvælastofnunar (MAST)