Evrópuverkefni um landsgátt og rafræna miðlun lykil heilbrigðisupplýsinga yfir landamæri
12. september 2022
Embætti landlæknis hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu til að setja upp landsgátt til að miðla lykilupplýsingum úr sjúkraskrá á milli landa í Evrópu fyrir þá einstaklinga sem þurfa að leita sér heilbrigðisþjónustu erlendis og jafnframt íbúa annarra Evrópulanda sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu hérlendis. Lykilupplýsingar úr sjúkraskrá eru m.a. upplýsingar um ofnæmi, áhættuþætti, lyf, sjúkdómsgreiningu og meðferð.
Markmið verkefnisins er að stuðla að betri og öruggari heilbrigðisþjónustu innan Evrópu. Með verkefninu verður brotið blað í heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, þar sem hægt verður að deila lykilupplýsingum úr sjúkraskrá einstaklings til heilbrigðisstarfsmanna sem þurfa að sinna viðkomandi í öðru landi en heimalandi. Slíkur öruggur aðgangur heilbrigðisstarfsmanna að heilsufarsupplýsingum sinna sjúklinga hvenær sem þörf er á, stuðlar að samfellu í þjónustu sem aftur eykur öryggi og gæði í meðferð sjúklinga yfir landamæri.
Munu einstaklingarnir sjálfir geta heimilað heilbrigðisstarfsmönnum viðkomandi lands aðgang að sinni sjúkraskrá í gegnum Heilsuveru.
Vinna við verkefnið er á undirbúningsstigi, en um er að ræða 3ja ára verkefni sem lýkur haustið 2025. Það er svið miðstöðvar rafrænna heilbrigðislausna hjá embætti landlæknis sem stýrir verkefninu og hefur einnig yfirumsjón með rafrænni sjúkraskrá á landsvísu. Innleiðing verkefnisins er mikilvæg viðbót við þær rafrænu heilbrigðislausnir sem þegar eru til staðar, en mikil uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár meðal annars með samtengingu sjúkraskráa á landsvísu, rafrænum lyfjaávísunum og aðgangi að Heilsuveru.
Styrkupphæðin nemur 1,8 milljón evrum og er eins og áður sagði veitt vegna Evrópuverkefnisins MyHealth@EU eHealth Digital Service Infrastructure (eHDSI).
Útboð mun fara fram varðandi þróun og innleiðingu verkefnisins.
Nánari upplýsingar veitir
Kjartan Hreinn Njálsson,
aðstoðarmaður landlæknis.
kjartanh@landlaeknir.is