Endurskoðuð handbók um mataræði í framhaldsskólum komin út
2. febrúar 2023
Ný Handbók um mataræði í framhaldsskólum hefur verið gefin út hjá embætti landlæknis.
Ný Handbók um mataræði í framhaldsskólum hefur verið gefin út hjá embætti landlæknis. Síðasta handbók fyrir framhaldsskóla er frá árinu 2010. Miklar breytingar hafa orðið á matarumhverfi nemenda á þessum tíma og kom starfsfólk framhaldsskóla að gerð þessarar handbókar. Handbókin byggir á ráðleggingum um mataræði sem embætti landlæknis gefur út. Í handbókinni eru leiðbeiningar um æskilegt fæðuframboð í hádegismat og hvaða framboð á matvælum er æskilegt yfir daginn í framhaldsskólum. Einnig má finna hagnýtar upplýsingar um hollustu og samsetningu fæðunnar, matseðlagerð, jurtafæði, fæðuofnæmi og fæðuóþol, innkaup og matarsóun svo eitthvað sé nefnt. Að auki eru í handbókinni fjöldinn allur af uppskriftum. Handbókin er eingöngu aðgengileg á rafrænu formi.
Handbókin er fyrst og fremst ætluð sem stuðningur fyrir þá sem útbúa mat fyrir nemendur í framhaldsskólum og þá sem hafa áhrif á hvaða matur er þar í boði. Einnig getur efni hennar nýst sem kennsluefni í viðeigandi fögum eins og næringarfræði og því mikilvægt að starfsfólk framhaldsskóla viti af tilvist þessarar handbókar. Tilgangurinn með útgáfu handbókarinnar er að auðvelda skólum að bjóða nemendum hollan, góðan og öruggan mat. Í handbókinni er sérstaklega hugað að fjölbreyttu fæðuvali, fiskmáltíðum, grænmetisréttum, neyslu ávaxta og grænmetis, heilkornavara, auk vatnsdrykkju. Einnig er lögð áhersla á að nota D-vítamínbætta mjólk og jurtamjólk fyrir nemendur sem ekki drekka mjólk.
Mikilvægt er að framhaldsskólar móti stefnu á sviði næringar og að starfsfólk hafi yfirsýn yfir hvaða matur stendur nemendum til boða meðan á dvöl þeirra í skólanum stendur. Nauðsynlegt er að stjórnendur skólans og starfsfólk eldhúss fundi reglulega til að fara yfir næringarstefnu skólans sem og starfsemi og skipulag eldhúss. Það er von embættisins að handbókin komi að góðu gagni við að stuðla að fjölbreyttu og hollu mataræði framhaldsskólanemenda.
Faghópur sem kom að gerð handbókar um mataræði fyrir framhaldsskóla.
Upplýsingar um Heilsueflandi framhaldsskóla.
Nánari upplýsingar veita verkefnisstjórar næringar:
Hólmfríður Þorgeirsdóttir
holmfridur.thorgeirsdottir@landlaeknir.is
Jóhanna Eyrún Torfadóttir
johanna.e.torfadottir@landlaeknir.is