Endurgreiðsla gjalds vegna umsókna um starfs- og sérfræðileyfi
31. janúar 2023
Vísað er til niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins frá 2. nóvember 2022 um gjaldtöku vegna umsókna um starfs- og sérfræðileyfi. Embætti landlæknis hefur nú farið yfir það hverjum beri að endurgreiða gjaldið sem um ræðir. Embættið hefur nú greitt rúmlega 8,4 milljónir til 165 einstaklinga, sem höfðu sótt um starfs- og/eða sérfræðileyfi hér á landi, stunduðu allt nám sitt á Íslandi og höfðu greitt umrætt gjald.
Vísað er til fréttar á heimasíðu embættis landlæknis 9. desember 2022 er varðar niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins frá 2. nóvember 2022 um gjaldtöku vegna umsókna um starfs- og sérfræðileyfi.
Embætti landlæknis hefur nú farið yfir það hverjum beri að endurgreiða gjaldið sem um ræðir. Með milligöngu Fjársýslunnar hefur embættið nú greitt rúmlega 8,4 milljónir til 165 einstaklinga, sem höfðu sótt um starfs- og/eða sérfræðileyfi hér á landi, stunduðu allt nám sitt á Íslandi og höfðu greitt umrætt gjald. Enn fremur voru greiddir áfallnir vextir sem og dráttarvextir í samræmi við 1. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda.
Endurgreidd voru gjöld sem greidd voru næstu fjögur árin fyrir dagsetningu niðurstöðu heilbrigðisráðuneytisins, þ.e. miðað var við fjögurra ára fyrningarfrest, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 150/2019. Embættið leitaði m.a. ráðgjafar hjá Fjársýslunni, fjármálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti í tengslum við framkvæmd endurgreiðslna. Endurgreitt gjald var lagt inn á bankareikning viðtakanda og upplýst um endurgreiðsluna með skilaboðum í pósthólf viðtakanda á Ísland.is.
Embætti landlæknis biður hlutaðeigandi velvirðingar á þeim mistökum sem áttu sér stað með innheimtu umrædds gjalds.
Nánari upplýsingar veitir:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is