Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Eldgos á Reykjanesskaga

20. desember 2023

Að kvöldi 18. desember sl. hófst eldgos að nýju á Reykjanesi við Sundhnúksgíga. Gossprungan var í upphafi um 4 km á lengd og kemur bæði hraun og gas upp úr sprungunni. Engin aska greinist í andrúmsloftinu. Töluvert hefur dregið úr krafti gossins og gýs nú úr nokkrum gosopum á sprungunni.

Eldgos appelsínugulur

Ekki er talið að almenningi stafi bráð hætta af eldgosinu og ekki er útlit fyrir að innviðir séu í bráðri hættu eins og staðan er núna. Búast má við talsverðri gasmengun við gosstöðvarnar og er fólk beðið um að fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum lögreglustjórans á Suðurnesjum og Almannavarna varðandi aðgengi að gosstöðvum. Þá má búast við að gasmengunar verði vart í nálægðri byggð en fyrstu upplýsingar gefa til kynna að styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) sé minni eða sambærilegur við gasmengunina frá eldgosinu í Fagradalsfjalli.

Veðurstofan hefur gefið út gasdreifilíkan sem birt er á vef þeirra og að sama skapi má finna upplýsingar um loftgæði á vef Umhverfisstofnunar.

Sóttvarnalæknir vekur athygli á fræðslubæklingi fyrir almenning varðandi hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar í nágrenni eldstöðva sem unninn var í samstarfi við ýmsar stofnanir og félagasamtök. Í bæklingnum eru upplýsingar um hugsanleg áhrif loftmengunar á heilsufar manna og þar má finna upplýsingar um hvernig helst megi verja sig gegn loftmengun vegna eldgosa. Bæklingurinn er gefinn út á íslensku, ensku og pólsku.

Þá heldur sóttvarnalæknir úti vefsíðu þar sem finna má gagnlegar upplýsingar um heilsufarsleg áhrif eldgosa.

Sóttvarnalæknir