Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Ekki ástæða fyrir heimili að eiga joðtöflur vegna ástandsins í Úkraínu

4. mars 2022

Joðtöflur hafa verið til umræðu á samfélagsmiðlum og í fréttum bæði hér á landi og erlendis. Fram hefur komið að fólk á Íslandi sé að kaupa joðtöflur til að verjast hugsanlegri geislavirkni í tengslum við stríð í Úkraínu.

Sóttvarnalæknir - logo

Ástæðan fyrir þessum áhyggjum eru áhrif geislavirks joðs á skjaldkirtil í fólki undir fertugu en mikil útsetning fyrir geislavirkni getur hugsanlega aukið áhættu á krabbameini í skjaldkirtli.

Engin ástæða er til að taka joðtöflur án þess að hafa verið útsettur fyrir geislavirkni eða að útsetning sé fyrirsjáanleg. Ástæðulaus inntaka gæti leitt til meiri skaða (aukaverkana og ofnæmis) en gagns. Aðeins ætti að nota joðtöflur í slíkum tilgangi samkvæmt leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda.

Þótt kjarnorkuslys yrði í Úkraínu (eða annars staðar á meginlandi Evrópu) er afar ólíklegt að geislavirk efni berist þaðan til Íslands í þeim mæli að það kalli á sérstakar aðgerðir hérlendis (eins og töku joðtaflna, skýlingu eða brottflutning), sbr. einnig reynsluna af kjarnorkuslysinu í Chernobyl. Vegna þess hve fjarlægðin milli Úkraínu og Íslands er mikil þá myndu líða margir dagar þar til geislamengun bærist til Íslands. Á mörgum dögum verður þynningin á geislavirkni mjög mikil. Hvað geislavirkt joð varðar sem helst ber að varast vegna losunar kjarnorku þá er helmingunartími þess joðs (samsætan I-131) auk þess stuttur (8 dagar) þannig að það eyðist hratt.

Þess má einnig geta að á vegum sóttvarnalæknis eru til birgðir af joðtöflum ef svo ólíklega vildi til að á þyrfti að halda. Það er því engin ástæða fyrir fólk á Íslandi að kaupa joðtöflur til að verjast hugsanlegri geislavirkni frá meginlandi Evrópu.

Sóttvarnalæknir og Geislavarnir ríkisins