Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu – tilkynning alvarlegra atvika

2. september 2024

Hinn 1. september 2024 öðluðust gildi breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, varðandi meðal annars heimildir til að tilkynna alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Með alvarlegu atviki er átt við óvænt atvik í heilbrigðisþjónustu sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum.

Sem fyrr ber heilbrigðisstofnunum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu að tilkynna landlækni um óvænt atvik, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna:

Heilbrigðisstofnunum og rekstraraðilum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni án tafar um alvarleg atvik. Jafnframt skal tilkynna sjúklingi um hið alvarlega atvik án ástæðulausrar tafar og nánasta aðstandanda hans, svo sem maka, foreldri eða afkomanda, þegar það á við, sbr. 5. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Sú breyting varð frá og með 1. september 2024 að sjúklingur eða nánasti aðstandandi hans geta einnig tilkynnt landlækni um alvarlegt atvik samanber framangreint.

Þá varð einnig sú breyting að landlæknir getur tekið alvarlegt atvik til rannsóknar að eigin frumkvæði þótt það hafi ekki verið tilkynnt formlega. Landlæknir ákveður einnig hvort nægar ástæður séu til rannsóknar á alvarlegum atvikum og tekur þá meðal annars „tillit til alvarleika og umfangs atviks og annarra þátta sem skipt geta máli, lærdóms sem draga má af slíkri rannsókn og þess hve líklegt sé að niðurstaða rannsóknar leiði til þess að sambærileg atvik eigi sér ekki aftur stað og auki öryggi og gæði í heilbrigðisþjónustu.“

Enn fremur varð sú breyting að:
Sjúklingur sem verður fyrir alvarlegu atviki á rétt á upplýsingum um framgang rannsóknar, aðgangi að málsgögnum, öðrum en viðtalsgögnum skv. 3. mgr. 10. gr. c, og að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við rannsóknina. Sama rétt á nánasti aðstandandi sjúklings þegar sjúklingur er látinn eða ófær um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ýmsar fleiri breytingar urðu á lögunum 1. september 2024, meðal annars varðandi aðgang að gögnum, rannsóknartíma og málsmeðferð.

Breytingarnar hafa ekki verið færðar inn í heildartexta laga um landlækni og lýðheilsu en þær má sjá á vef Alþingis. Sjá þar einnig breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 og breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is