Bráðar öndunarfærasýkingar: Faraldsfræði og tilmæli sóttvarnalæknis veturinn 2024–2025
23. desember 2024
Gögn ríkja sem senda tilkynningar til Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins (ECDC) sýna verulega aukningu í árlegri inflúensu- og RS-veirusýkingum (RSV), sem einnig eru að valda auknu álagi í heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi er um þessar mundir sérstaklega mikil aukning á RSV, samfara aukning á inflúensu.
Samantekt
1. Faraldsfræði
RSV og inflúensa:
Á Íslandi hefur orðið veruleg aukning á RSV sýkingum, með tíðni hærri en síðasta vetur. Flest ríki sem senda gögn til ECDC hafa greint frá mikilli aukningu á bæði inflúensu og RSV. Inflúensuveirustofnar A(H1N1)pdm09, A(H3N2) og B eru nú í umferð.Áhrif á heilbrigðisþjónustu:
Samhliða sýkingar vegna inflúensu og RSV, auk COVID-19 á lágu stigi, skapa verulega áhættu fyrir heilbrigðiskerfið. Innlagnir á sjúkrahús eru á meðal allra aldurshópa, en ungbörn (sérstaklega vegna RSV) og eldra fólk eru í mestri hættu. Landspítali hefur þegar greint frá miklu álagi vegna RSV.Áhætta yfir hátíðar:
Jólahátíðin, með samkomum, auknum ferðalögum og verslun, getur aukið útbreiðslu öndunarfærasýkinga.
2. Tilmæli
Viðbúnaður:
Búast má við frekari aukningu á inflúensu og RSV næstu vikurnar. Skerpa þarf á sýkingavörnum á heilbrigðisstofnunum, þar á meðal á hjúkrunarheimilum.Bólusetningar:
Bólusetningar eru áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir alvarleg einkenni öndunarfærasýkinga.Uppfærð COVID-19 bóluefni fyrir veturinn 2024–2025 veita aukna vörn gegn alvarlegum afleiðingum SARS-CoV-2 (veirunnar sem veldur COVID-19).
Einstaklingar sem mælt er með bólusetningu gegn inflúensu- eða COVID-19 fyrir eru hvattir til að þiggja þær sem fyrst.
Þótt ónæmisaðgerðir gegn RSV fyrir ungbörn og bólusetning fyrir fullorðna séu ekki orðnar hluti af almennum bólusetningum á Íslandi, er það til skoðunar.
Veirulyf:
Meðferð með veirulyfjum gegn inflúensu og COVID-19 snemma í veikindum, sem og einstofna mótefni gegn SARS-CoV-2, getur komið í veg fyrir alvarleg veikindi hjá áhættuhópum.Vöktun óvæntra atburða:
Hrina öndunarfærasýkinga, svo sem vegna adenoveiru eða Mycoplasma pneumoniae, sem eru ekki almennt vaktaðar, geta einnig aukið álag á heilbrigðiskerfið.
Faraldsfræði í ESB/EES-ríkjum
a. Tíðni öndunarfærasýkinga
Vikulega eru gögn um öndunarfærasýkingar eru uppfærðar á vef embættis landlæknis og ECDC.
Nýleg gögn sýna aukna útbreiðslu í samfélaginu á inflúensu og RSV í flestum ríkjum sem senda tilkynningar til ECDC.
Tíðni inflúensu og RSV í Evrópu virðist vera að færast aftur í fyrra horf eftir COVID-19 faraldurinn.
Á Íslandi er tíðni inflúensu sambærileg við á síðasta ári en RSV er að aukast hraðar (graf).
SARS-CoV-2 virkni er stöðug á lágu stigi og ekki er ljóst hvort COVID-19 faraldur muni endurtaka sig í vetur.
Graf. RS veirusýkingar á Íslandi veturinn 2023–2024 og 2024–2025 (til og með viku 50).
b. Alvarleg veikindi
Í Evrópu er aukning á sjúkrahúsinnlögnum vegna inflúensu og RSV, sérstaklega hjá eldra fólki og ungum börnum.
Innlagnir vegna RSV eru aðallega meðal barna 0–4 ára, einkum ungbarna, sem eru í mestri hættu á alvarlegum sjúkdómi. Á Landspítala voru 30 einstaklingar inniliggjandi með RS veirusýkingu í viku 50, 2024, þar af 11 ungbörn.
Innlagðir á sjúkrahús með COVID-19 eru aðallega einstaklingar 65 ára og eldri.
c. Inflúensa
Stofnar inflúensu A(H1N1)pdm09, A(H3N2) og B, eru allir í dreifingu í Evrópu.
Það er of snemmt að spá fyrir um hvaða stofnar verða ríkjandi síðar í vetur.
d. RSV
Stofnar RSV eru almennt ekki greindir en gögn benda til að hlutfall RSV-A og RSV-B í umferð sé nokkuð jafnt.
Ónæmisaðgerðir gegn RSV, svo sem bóluefni fyrir fullorðna og einstofna mótefni fyrir ungbörn, hafa reynst örugg og sýnt góða virkni í að draga úr innlögnum vegna RSV. Þótt ónæmisaðgerðir gegn RSV séu ekki orðnar hluti af almennri bólusetningaráætlun á Íslandi, er það til skoðunar.
e. COVID-19/SARS-CoV-2
Afbrigði: KP.3 var ríkjandi þegar SARS-CoV-2 greiningar náðu hámarki sumarið 2024. Nú er XEC afbrigðið ríkjandi afbrigði á ESB/EES-svæði. Hins vegar eru engar vísbendingar um að það valdi alvarlegri sjúkdómi.
Uppfærð COVID-19 bóluefni eru talin veita aukna vernd fyrir áhættuhópa í vetur, þar á meðal gegn ríkjandi afbrigðum.
Bólusetningar og veirulyf
a. Inflúensa og SARS-CoV-2
Bólusetningar gegn inflúensu og COVID-19 eru í gangi í ESB/EEA-ríkjum.
Læknar eru hvattir til að nota veirulyf, eins og nirmatrelvir/ritonavir (Paxlovid) og remdesivir (Veklury), snemma í veikingum fyrir áhættuhópa.
Einstaklingar sem mælt er með bólusetningum gegn COVID-19 eða inflúensu fyrir, sem eru í aukinni áhættu á alvarlegum sjúkdómi og hafa ekki enn þegið bólusetningu, eru eindregið hvattir til þess.
Heilbrigðisstarfsmenn eru einnig hvattir til að láta bólusetja sig gegn inflúensu og COVID-19 til að vernda sig og minnka líkur á að smita viðkvæma hópa.
Læknar eru minntir á að þegar það á við getur snemmbúin notkun veirulyfja gegn inflúensu og COVID-19 komið í veg fyrir alvarlegan sjúkdóm hjá viðkvæmum hópum.
b. RSV
Ákveðnir áhættuhópar ungbarna á Íslandi geta fengið palivizumab mótefnasprautur mánaðarlega á RSV-tímabilinu. Víðtækari ónæmisaðgerðir fyrir RSV fyrir öll ungbörn og bólusetning fyrir fullorðna eru til skoðunar sem hluti af almennri bólusetningaráætlun.
Sýkingavarnir
Tímabil jólahátíðar og áramóta eykur áhættu á útbreiðslu öndunarfærasýkinga. Heilbrigðisstofnanir ættu að undirbúa sig fyrir aukið álag á bráðamóttökur og gjörgæslu.
Áhersla á sýkingavarnir, þar með talið bólusetningar heilbrigðisstarfsfólks og almennar sýkingavarnir, geta dregið úr hópsýkingum á heilbrigðisstofnunum og hjúkrunarheimilum.
Auk inflúensu, RSV og COVID-19 geta óvæntir atburðir eða hrinur öndunarfærasýkinga, sem ekki eru venjulega vaktaðar, valdið auknu álagi á heilbrigðiskerfið.
Þeir sem eru veikir eru minntir á almennt hreinlæti og góða handhreinsun auk þess að halda sig heima á meðan þeir eru með einkenni.
Boðið er upp á bólusetningar fyrir viðkvæma hópa. Einstaklingar í aukinni áhættu á alvarlegum sjúkdómi ættu einnig að íhuga að nota andlitsgrímu þegar þeir eru í fjölmenni.
Sóttvarnalæknir