Bólusetning vegna apabólu (MPX) á Íslandi
28. september 2022
Bólusetning vegna apabólu á Íslandi Vegna faraldurs apabólu í heiminum á þessu ári er auk sóttvarna mælt með bólusetningu áhættuhópa til að minnka líkur á útbreiðslu apabólu og veikindum.
Vegna faraldurs apabólu í heiminum á þessu ári er auk sóttvarna mælt með bólusetningu áhættuhópa til að minnka líkur á útbreiðslu apabólu og veikindum. Bólusetning gegn apabólu stendur nú yfir hérlendis og er framkvæmd bólusetningar á vegum Landspítala.Tæplega 500 manns hafa fengið boð í bólusetningu og um 150 hafa verið bólusettir. Gefa þarf tvo skammta af bóluefni með fjögurra vikna millibili.
Tilfellum apabólu hefur heldur fækkað undanfarið í Evrópu. Sjúkdómurinn hefur aðallega greinst hjá karlmönnum á aldrinum 18-50 ára, sjúkrahússinnlagnir hafa verið fáar og dauðsföll sjaldgæf. Alls hafa 14 manns greinst hérlendis og allir hafa verið í einangrun utan sjúkrahúss.
Sjá einnig hér almennar upplýsingar um apabólu, sóttvarnir, og nánari upplýsingar um áhættuhópa, bóluefni notað og aukaverkanir.
Sóttvarnalæknir