Aukning lekandatilfella á Íslandi
7. september 2023
Lekandi er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríunni Neisseria gonorrhoeae. Lekandi smitast oftast við beina snertingu slímhúða við kynlíf og getur bakterían tekið sér bólfestu í kynfærum, þvagrás, endaþarmi og hálsi. Þaðan getur bakterían borist í augu með sýktum vessa og valdið augnsýkingu hjá nýburum við fæðingu. Sýking í endaþarmi og hálsi er oftast einkennalaus. Komi einkenni fram er það oftast 1–7 dögum eftir smit en einkenni geta komið fram síðar.
Hjá körlum er algengasta einkennið sviði eða óþægindi við þvaglát (þvagrásarbólga) með graftarkenndri útferð úr þvagrás. Einkennalaus sýking karla er sjaldgæfari en hjá konum.
Einkenni sýkingar í þvag- og kynfærum kvenna eru oft breytt eða aukin útferð og kviðverkir um neðanverðan kvið. Önnur einkenni eru milliblæðingar eða sviði og óþægindi við þvaglát. Konur eru oft einkennalausar eða einkennalitlar.
Aukning tilfella árin 2022 og 2023
Mikil aukning hefur orðið á greiningum kynsjúkdómsins lekanda (gonorrhea) á Íslandi. Árið 2022 greindust 158 einstaklingar og þá var það mesti fjöldi sem hafði greinst í 30 ár, en eftir 1990 hafði dregið mjög úr nýgengi sjúkdómsins. Tilfellum lekanda heldur áfram að fjölga og með ágústmánuði ársins 2023 hafa greinst 213 tilfelli lekanda. Þannig er fjöldi greininga orðinn mun meiri á fyrstu átta mánuðum ársins en allt árið í fyrra.
Þegar tilfelli fyrstu átta mánuði ársins 2023 eru borin saman við sama tímabil ársins 2022 sést að hlutfallslega varð mest aukning í aldurshópunum 25–34 ára hjá körlum og 25–29 ára hjá konum. Hins vegar greindist engin kona með lekanda árið 2022 í aldurshópnum 35–44 ára en fyrstu átta mánuði ársins 2023 hafa greinst 12 konur í þessum aldurshópi, sem er heldur fleiri en greindust árin á undan. Tilfelli lekanda eru almennt færri hjá konum en körlum og því sveiflur milli ára meiri. Þá ber að hafa í huga að ekki þarf mörg tilfelli til þess að hlutfallsleg aukning milli ára sé mikil.
Af hverju er þessi aukning nú?
Ekki hafa komið fram ákveðnar skýringar á hvað veldur þessari miklu aukningu lekanda nú. Notkun smokka við kynlíf dregur verulega úr smiti kynsjúkdóma og umræða er um hvort dregið hafi úr notkun smokka almennt. Engar nýlegar rannsóknir eða gögn eru til um þetta hér á landi en í nokkrum nágrannalöndum hefur verið farið af stað með atferlisrannsóknir (Behavioural study) þar sem meðal annars smokkanotkun er könnuð. Önnur skýring getur verið að einkennalausir eða einkennalitlir einstaklingar viti ekki af sýkingunni og smiti aðra óafvitandi og þá sérstaklega ef smokkur er ekki notaður. Konur eru oft einkennalausar eða einkennalitlar og eins er sýking í endaþarmi og hálsi oft einkennalaus hjá báðum kynjum. Því er mjög mikilvægt að smitrakning kynsjúkdóma sé alltaf gerð, sýni tekin hjá þeim sem kynlíf var stundað með aftur í tímann (sl. 12 mánuði) og að smitaðir fái og ljúki meðferð.
Sama þróun aukningar tilfella hefur sést á hinum Norðurlöndunum og víðast hvar á meginlandi Evrópu. Í sumum löndum hefur aukning orðið mest hjá yngri aldurshópum sem er sérstakt áhyggjuefni því lekandi getur valdið slæmum sýkingum í kviðarholi og leitt til ófrjósemis auk þess getur barn smitast við fæðingu og fengið alvarlega augnsýkingu. Vaxandi áhyggjur eru einnig af sýklalyfjaónæmum lekandabakteríum sem eru þá ónæmar fyrir þeim lyfjum sem eru notuð venjulega. Sýklalyfjaónæmar lekandabakteríur hafa greinst í sumum öðrum löndum og er ástæða til að hafa áhyggjur af útbreiðslu þeirra. Aukið sýklalyfjaónæmi þýðir að erfiðara er að meðhöndla lekanda með sýklalyfjum og þar með erfiðara að ná bata og takmarka útbreiðslu sjúkdómsins.
Hvað getur þú gert?
Notkun smokka við kynlíf er góð vörn gegn kynsjúkdómum og dregur verulega úr smiti lekandabakteríunnar.
Sóttvarnalæknir hvetur einstaklinga sem hafa grun um að hafa smitast af lekanda, hvort sem einkenni eru til staðar eða ekki, að fara í sýnatöku. Meðferð er til við lekanda og það er mikilvægt að ljúka henni og ekki stunda kynlíf á meðan meðferð stendur. Hægt er að fara í sýnatöku án endurgjalds á göngudeild húð-og kynsjúkdóma og á heilsugæslustöðvum.
Lesa nánar: Upplýsingar um lekanda og aðra kynsjúkdóma.
Sóttvarnalæknir
Heimildir: