Andleg líðan á óvissutímum
19. janúar 2024
Langvarandi óvissa og hamfarir hafa haft mikil áhrif á líf og líðan Grindvíkinga og ekki sér fyrir endann á þeirri óvissu sem þeir búa við. Nú sem áður er mikilvægt að huga að andlegri heilsu, hlúa eins vel að sér og hægt er og nýta sér þau bjargráð sem til staðar eru.
Á upplýsingasíðu fyrir íbúa Grindavíkur má finna hagnýtar upplýsingar um líðan og bjargráð í náttúruvá auk upplýsinga um þau úrræði sem hægt er að leita í er snúa að sálfélagslegum stuðningi. Þá hefur embætti landlæknis gefið út heilræði á óvissutímum sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er gagnlegt að gera til þess að hlúa að líðan okkar.
Grindvíkingar eru hvattir til þess að nýta sér þjónustumiðstöð almannavarna í Tollhúsinu en þar er m.a. hægt að fá viðtal og sálfélagslegan stuðning hjá fagfólki Rauða krossins. Þjónustumiðstöðin er opin alla virka daga frá 10 – 17 en einnig er hægt að hafa samband við þjónustumiðstöðina í síma 855-2787 og í netfangið fyrirspurnir@almannavarnir.is
Alma D. Möller landlæknir