Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Andlát á Íslandi vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs

16. maí 2022

Yfirferð dánarvottorða hjá embætti landlæknis hefur leitt í ljós að samtals hafa orðið 153 andlát á Íslandi vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs til 1. apríl 2022.

Landlæknir logo

Andlát og dánarvottorð

Yfirferð dánarvottorða hjá embætti landlæknis hefur leitt í ljós að samtals hafa orðið 153 andlát á Íslandi vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs til 1. apríl 2022. Þetta eru andlát þar sem COVID-19 hefur greinst innan 28 daga fyrir andlátið og valdið dauða viðkomandi skv. dánarvottorði.

Dánarvottorð berast að jafnaði ekki til landlæknis fyrr en mörgum vikum eftir andlát og eru því ekki hentug til að fylgjast með dánarorsökum í rauntíma. Sjúkrahús höfðu sent tilkynningar beint til sóttvarnalæknis um dauðsföll vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs. Samtals hefur þannig borist 101 tilkynning um andlát til sóttvarnalæknis á ofangreindu tímabili. Árið 2020 voru tvö andlát ekki tilkynnt og árið 2022 voru 50 andlát ekki tilkynnt miðað við dánarvottorð.

Skýringin á því að ekki voru öll dauðsföll tilkynnt beint til sóttvarnalæknis á þessu ári er sú að ekki var óskað eftir því fyrr en í lok febrúar 2022 að allar heilbrigðisstofnanir sendu slíkar tilkynningar. Hjúkrunarheimili sendu því ekki tilkynningar beint til sóttvarnalæknis í byrjun árs og hafa ekki öll haft tök á að senda þær. Hjúkrunarheimilin og sóttvarnalæknir hafa verið meðvituð um þetta misræmi og að endanlegur fjöldi COVID-19 tengdra dauðsfalla lægi ekki fyrir fyrr en eftir yfirferð dánarvottorða.

Stofnanir eru áfram beðnar um að tilkynna dauðsföll vegna COVID-19 beint til sóttvarnalæknis en endanlegur fjöldi andláta er síðan skv. dánarvottorðum. Í apríl voru 18 andlát tilkynnt og eitt það sem af er maímánuði.

Umframdauðsföll

Eins og áður hefur komið fram er áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda andláta á tímum COVID-19 sennilega að skoða svokölluð umframdauðsföll en þá er fjöldi dauðsfalla af öllum orsökum borinn saman við meðalfjölda andláta undanfarinna ára.

Þegar umframdauðsföll eru skoðuð með þessum hætti á Íslandi sést marktæk aukning í mars árið 2022 hjá einstaklingum eldri en 70 ára en ekki sést aukning fyrir heildarfjölda andláta. Hins vegar sást marktæk fækkun andláta hjá eldri en 70 ára árin 2020 og 2021 (sjá frétt á vef embættisins 28. apríl sl.). Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) birti nýlega úttekt á umframdauðsföllum í heiminum á tímum COVID-19 fyrir árin 2020 og 2021 og skv. þeirra mati voru dauðsföll stórlega vantalin en misjafnlega mikið eftir löndum/svæðum.

Sóttvarnalæknir